Skugga­hliðin jólanna er safn kvæða og sagna en efnið er hljóð­ritað eftir nafn­greindu fólki á liðinni öld og varð­veitt í þjóð­fræða­safni Stofnunar Árna Magnús­sonar í ís­lenskum fræðum. Eva María Jóns­dóttir, starfs­maður Árna­stofnunar, og Rósa Þor­steins­dóttir þjóð­fræðingur tóku efnið saman og Óskar Jónas­son gerði teikningar sem prýða bókina.

„Hug­myndin kviknaði þegar við Óskar vorum að vinna að Dans vil ég heyra, lítilli kvæða­bók fyrir börn með sagna­dönsum, þulum og vísum. Þá var ég í sam­starfi við Rósu vegna texta sem er að finna á upp­tökum í þjóð­fræða­safninu. Hún hafði þá þegar opnað augun fyrir gamla jóla­efninu og sér­stöðu þess og það kom upp úr dúrnum að okkur langaði báðar til að sýna fólki að jólin hafa ekki alltaf verið skínandi alls­nægtir sem kaupa má fyrir fé. Við fórum síðan að vinna að bókinni nokkrum árum seinna,“ segir Eva María. „Efnið í þessari bók er allt til í þjóð­fræða­safni Árna Magnús­sonar í ís­lenskum fræðum. Við hlustuðum á upp­tökur og völdum efni sem fjallar um jólin og bar­áttuna við skamm­degið.“

„Fæst af því sem er í bókinni hefur verið til á prenti. Ýmsar sögur í bókinni eru þó til í öðrum til­brigðum í þjóð­sagna­söfnum, en við prentum sögurnar eins og þær eru sagðar á hljóð­upp­tökum, og setjum orð­skýringar við það sem er ill­skiljan­legt flestum börnum,“ segir Rósa.

„Með þessari bók viljum við minnast fyrri tíma þegar jólin voru stór­hættu­legur tími. Gríðar­lega ör­laga­ríkur og allt mögu­legt gat gerst,“ segir Eva María. Rósa bætir við: „Þetta er árs­tíminn þegar sólin fer og til verður tíma­bil ó­vissu og vættir fara á kreik.“

„Með þessari bók viljum við minnast fyrri tíma þegar jólin voru stór­hættu­legur tími," segir Eva María.
Fréttablaðið/Sigtryggur

Í erma­bættum kjól

Eva María segir bókina ekki endi­lega vera einungis fyrir börn. „Við sáum fyrir okkur að bókin skapaði tæki­færi til sam­veru.“ Óskar tekur í sama streng: „Þetta er góð bók fyrir full­orðna að lesa fyrir börn og með börnum. Þarna er margt sem má út­skýra og þótt orð­skýringar fylgi þá má örugg­lega fara dýpra ofan í margt og ræða jólin í gamla daga.“ Rósa bætir við: „Það má til dæmis benda á fá­tæktina og hvað það var mikils virði fyrir fá­tækt fólk að geta gert sér ein­hvern daga­mun.“

„Jólin eru að verða hálf­gerður hryllingur með gjafa­flóði og sukki. Það er hollt að líta til baka og sjá hvernig jólin voru og reyna að finna ein­hvern milli­veg,“ segir Óskar. „Og vera í erma­bættum kjól, sem er ó­trú­lega fal­legt. Ég vona að sem flestir fái erma­bættan kjól um jólin,“ segir Eva María.

Hin ljóta hlið jólanna

Um mynd­skreytingar sínar segir Óskar: „Ég hafði mjög gaman af að mynd­skreyta efnið. Það var skemmti­legt að rýna í þessa texta og sjá fyrir sér kring­um­stæðurnar og upp­götva hina ljótu hlið jólanna. Annars er ég ekki mikill að­dáandi jólanna. Mér finnst alltaf vera jól, við höfum alltaf allt til alls.“

„Ég hef einu sinni á­kveðið að sleppa jólunum og það var þegar ég var 24 ára. Þá fór ég af landi brott og reyndi að komast hjá til­standinu. Það læknaði mig af jóla­flótta,“ segir Eva María. „Ég hef tekið jólin í sátt en er alltaf að leita að þessum djúp­stæða kjarna þeirra.“ Eva María reynist vera mesta jóla­barnið af þeim þremur því Rósa segist aldrei hafa verið sér­stakt jóla­barn.

Spurð um upp­á­halds­efni sitt í bókinni nefnir Eva María Barna­gælu sem hefst svo: Heitan blóð­mör hæ, hangi­kjöt ég fæ ... „Ég elska þá vísu og myndin sem Óskar gerði við hana finnst mér ná kjarn­góðri stemningu úr for­tíðinni.“

„Mér finnst mjög skemmti­leg þulan um drenginn Drjólann og allt sem hann getur búið til úr þremur álnum af vað­máli, meira að segja kjálka­skjól handa kettinum og möttul handa músinni,“ segir Rósa.
„Ég hef gaman af þessu öllu saman en vil nefna kýrnar sem gerðu manninn vit­lausan. Smá­vísur eru svo margar ansi skondnar,“ segir Óskar.