Uppistandshópurinn Bara góðar kemur fram í fyrsta sinn þann 20. janúar næstkomandi í Þjóðleikhúskjallaranum og er uppselt en blásið hefur verið til aukasýningar þann 27. janúar og eru enn til miðar á þá sýningu, þó fáir séu. 

Ekki þarf þó að örvænta en til stendur að halda þriðju sýninguna þann 3. febrúar næstkomandi. Hópurinn er skipaður fimm konum á ólíkum aldri, 25 ára, 45 ára, 55 ára og 83 ára sem allar hafa reynslu af uppistandi.

Viðtökurnar farið fram úr björtustu vonum

Í samtali við Fréttablaðið segir Karen Björg Þorsteinsdóttir, sem skipar hópinn ásamt þeim Maríu Guðmundsdóttur, Kristínu Maríu Gunnarsdóttur, Hildi Birnu Gunnarsdóttur og Önnu Þóru Björnsdóttir að viðtökurnar hafi farið fram úr björtustu vonum hópsins.

„Við bjuggumst alls ekki við þessum viðtökum, maður er eiginlega bara kjaftstopp, segir Karen og hlær en hópurinn varð til þegar Kristín María og Hildur Birna fóru á uppistandsnámskeið hjá grínistanum Þorsteini Guðmundssyni sem hafi svo mælt með þeim Kareni, Önnu Þóru og Maríu.

„Svo er það bara tilviljun að við séum allar konur og að aldursbilið sé svona dreift en við sáum strax tækifæri í því og fannst gaman að spila með þetta. Svo ákváðum við bara að gera þetta almennilega og fórum í myndatöku og allt,“ segir Karen sem segir að hópurinn hafi svo ákveðið að halda prufusýningu á Hard Rock í miðbæ Reykjavíkur sem gengið hafi vel. 

Meginviðfangsefnið lífið sjálft

Meginviðfangsefni uppistandsins verður lífið sjálft og ólíkur hversdagsleiki einstaklinganna í hópnum sem eru enda á nokkuð ólíkum aldri.

„Við erum allar að gera grín að okkur sjálfum og okkar lífsreynslu. Við hittumst fyrir nokkrum dögum og viðruðum efnið okkar og það hefur verið mjög gaman að sjá hvað við erum að gera í lífinu af því við erum auðvitað á svo breiðu aldursbili.

Ég er til dæmis 25 ára og fólk er farið að búast við því að ég sé að fara að eignast barn og svo er fólk farið að koma öðruvísi fram við Maríu af því að hún er ellilífeyrisþegi og svo framvegis. Þetta verður kannski ekki um samfélagsmál þannig lagað séð en um lífið og hversdagsleikann,“ segir Karen en nafn hópsins hafi komið til eftir skemmtilega hugmyndavinnu.

„Við vorum alltaf að reyna að ákveða hvað nafnið ætti að vera og þetta var orðið frekar súrt á tímabili. Ég lagði til dæmis til nafnið „Vanhæfar“ eða „Lélegar“ og þá sagði Hildur bara „Nei veistu mér finnst við bara góðar!“ og úr því varð að við erum Bara góðar,“ segir Karen létt í bragði.