Konur tróna á toppnum á metsölulista Eymundsson nú í vikunni. Þetta er mögulega í fyrsta sinn sem aðeins konur skipa tíu efsti sætin á þessum eftirsóknarverða lista en vörustjóri hjá Eymundsson segist ekki muna eftir viku þar sem aðeins konur áttu mest seldu bækurnar í bókabúðum þeirra.

„Þú segir nokkuð,“ sagði Margrét Jóna Guðbergsdóttir, vörustjóri á verslunarsviði Eymundsson, þegar Fréttablaðið hringdi. „En skemmtilegt,“ bætti hún við.

Þá er einnig áhugavert að bækurnar allar eru kiljur en oftast má finna blöndu af skáldsögum, ljóðabókum, smásögum og barnabókum svo fátt sé nefnt.

Aðspurð hvort þetta sé í fyrsta sinn sem aðeins konur skipa efstu sætin segir Margrét Jóna:

„Ég þori ekki að fullyrða. Það gæti vel verið að þetta hafi gerst áður. Ég tek oftar eftir því ef þetta eru eingöngu barnabækur eða ljóðabækur,“ segir Margrét.

Fjórar af þeim tíu á toppnum eru íslenskar, þær Jónína Leósdóttir, Unnur Lilja Aradóttir, Hildur Knútsdóttir og Harpa Rún Kristjánsdóttir.

Þetta eru mestu seldu bækurnar í vikunni:

  1. Heimskautsbaugur Liza Marklund
  2. Sjö systur Lucinda Riley
  3. Launsátur Jónína Leósdóttir
  4. Bréfið Kathryn Hughes
  5. Höggið Unnur Lilja Aradóttir
  6. Myrkrið milli stjarnanna Hildur Knútsdóttir
  7. Þögla ekkjan Sara Blædel
  8. Ferðalag Cilku Heather Morris
  9. Kynslóð Harpa Rún Kristjánsdóttir
  10. Stúlka, kona, annað Bernardine Evaristo