Ungur maður bar upp bón­orðið á rómantískan hátt við tendrun Friðar­súlunnar í Við­ey í gær­kvöldi. „Ég varð vitni af því þegar þau voru að láta starfs­mann á svæðinu taka mynd af þessu“ sagði Ólafur Teitur Guðna­son, að­stoðar­maður Þór­dísar Kol­brúnar, sem smellti mynd af trú­lofuninni. „Ég spurði starfs­manninn hvort hvort um bón­orð væri að ræða og hún svaraði að það væri al­deilis þannig,“ bætti Ólafur við. „Þetta var ó­sköp rómantísk hjá þeim.“

Bón­orðið átti sér stað eftir að há­tíðar­dag­skrá var lokið og var Ólafur á leið sinni aftur að höfninni eftir tón­leika í Við­eyjarnausti. „Þá blasti þetta við tón­leika­gestum sem voru á leiðinni út í skip.“ Um er­lent par var að ræða en unga konan virðist vera himin­lifandi yfir trú­lofuninni á myndinni sem sýnir Friðarsúlna í bak­grunn

Tvö þúsund vitni af bón­orðinu

Ljóst er að fjöl­menni varð vitni að trú­lofun parsins en yfir tvö þúsund manns fylgdust með þegar kveikt var á súlunni. „Það var allt krökkt af fólki,“ sagði Ólafur sem var við­staddur við tendrun súlunnar í fyrsta sinn. Meiri­hluti gesta á svæðinu voru af er­lendu bergi brotnir en fjöldi fólks leggur leið sína til Ís­lands ár hvert til að verða vitni af tendruninni.

Þetta var í þrettánda sinn sem kveikt er á Friðar­súlunni en hún mun varpa ljósi upp í himininn til 8. desember, dánar­dags John Lennon. Þór­dís Lóa Þór­halls­dóttir, for­maður borgar­ráðs flutti á­varp áður en súlan var tendruð undir laginu Imagine með Lennon.

Friðarsúlan er útilistaverk eftir Yoko Ono, ekkju Lennons. Súlan var reist í Viðey árið 2007, til að heiðra minningu hans.