Mars Proppe, aktív­isti og hin­segin fræðari, er mikil á­huga­manneskja um bók­menntir en hán verður með við­burð í tengslum við Hin­segin daga sem kallast Bannaðar bækur í Höfðingja, sem fara mun fram í bóka­bílnum þann 3. ágúst. Frétta­blaðið talaði við Mars sem fór yfir það hvað felst í að banna bækur, en að­spurð segir hán að bönn á textum og bók­menntum geti verið mjög ólík.

„Það er stigs­munur og mis­munandi eftir stöðum og menningar­heimum,“ segir Mars: „Til dæmis er ekki rík hefð fyrir því á Ís­landi að banna bækur en hérna hefur rit­skoðunin átt sér stað meira í gegnum orða­notkun,“ segir hán og tekur dæmi: „Þegar sam­tökin '78 voru að verða til, fyrir tæpri hálfri öld, þá var bannað að nota orð eins og hommi og lesbía í út­varpinu og sjón­varpinu og það er meðal annars á­stæðan fyrir því að sam­tökin heita Sam­tökin '78 í dag en ekki eitt­hvað að­eins bein­skeyttara,“ segir Mars.

Hán segir að þrátt fyrir að þetta heyri að vissu leyti for­tíðinni til sé þessi hugsun enn til staðar.

„Við sjáum eima eftir af þessum púrítan­isma í mörgum ríkjum þar sem bækur bæði innan hin­segin bók­mennta en líka á­kveðnar póli­tískar bók­menntir eru bannaðar, eða á­kveðnir rit­höfundar sem eru bara ekki fáan­legir í landinu,“ segir Mars og tekur Kína sem dæmi.

„Þar er erfitt að finna ein­hvern tæmandi lista yfir bækur sem eru bannaðar og yfir­leitt eru bækurnar sjálfar ekki bannaðar heldur bara svona um­ræðan um bækurnar. Þannig getur þú fundið úti í búð bók eins og 1984 eftir Geor­ge Orwell, ef þú ætlar þér það. En þú getur samt ekki skrifað um hana rit­gerð og birt á netinu.“

Mars segir að aðrar að­ferðir séu meðal annars að taka bækur út sem kennslu­efni, en sú að­ferð hefur verið vin­sæl meðal annars í Banda­ríkjunum.

„Þar væri erfitt að banna bækur heilt yfir landið eða heilt yfir hvert ríki. Þá er tekinn sá póll að taka bækurnar úr skóla­kerfinu. Þá ertu í rauninni að minnka sjón­deildar­hringinn sem börnin sjá,“ segir Mars, sem telur að þetta sé ein­mitt hinn raun­veru­legi til­gangur bann­stefnu. „Að reyna að móta hug­myndir fólks um heiminn með af­þreyingar­efninu sem það tekur inn. Þá ertu í raun að koma þeim skila­boðum á fram­færi að stjórn­völdum eða fólkinu sem stjórnar finnist ó­æski­legt að tala um hin­segin­leika og vera eitt­hvað öðru­vísi en þessi hetero normatíva staðal­­í­mynd sem við höfum leyft að verða til í vest­rænu sam­fé­lagi,“ segir Mars.

„Af hverju er það á­róður þegar ég tala um mitt kyn en ekki þegar sís konan við hliðina á mér gerir það? Af hverju er það bara eðli­legt?“

Að­spurð um það hvers vegna hán á­kvað að taka fyrir bannaðar hin­segin bækur, segir Mars endur­tekið við­mót hafa ýtt sér af stað. „Mér finnst alltaf ó­trú­lega á­huga­vert þegar á­kveðið við­mót birtist á móti mér í mínum aktív­isma, en það gerist mjög reglu­lega, að jú, fólk vill að ég fái mín réttindi, en geti ég ekki bara gert það svo­lítið svona þar sem það er ekki fyrir því? En þessi hug­mynd er náttúru­lega í grunninn for­dóma­full. Af hverju er það á­róður þegar ég tala um mitt kyn en ekki þegar sís konan við hliðina á mér gerir það? Af hverju er það bara eðli­legt?“

Þannig sé bann á bókum og rit­skoðun að vissu leyti af sama meiði. Að það sé á­kveðin and­staða gegn öðru­vísi og hin­segin hlutum sem ekki megi færa inn í megin­strauminn.

„Það er þetta sem kom mér út í að vilja skoða þetta mál­efni, hvers vegna fólki finnst þetta svona ó­þægi­legt. Af hverju finnst fólki svona ó­þægi­legt að ég sé opin­ber­lega hin­segin? Af hverju finnst fólki það ó­þægi­legt að ég inn­byrði efni opin­ber­lega sem er hin­segin? Af hverju finnst fólki svona ó­þægi­legt að þessir hlutir séu til?“ spyr Mars og tekur fram: „Þannig vildi ég skoða þetta frá sjónar­horni þeirra sem eru að banna. Það er að segja hvað liggur á bak við bannið.“