Eurovision er loks á leið til Bandaríkjanna og stefna framleiðendur keppninnar á að hefja The American Song Contest í lok næsta árs.

Fram kemur á vef Variety að keppnin muni svipa til stórviðburðarins sem Evrópubúar þekkja og elska en listamenn frá öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna munu þar flytja frumflutt tónlistaratriði í beinni sjónvarpsútsendingu.

Það sem verður ólíkt með fyrirmyndinni er að fulltrúar ríkjanna keppa hver á móti öðrum í röð einvíga þar til tvö atriði standa eftir.

Þá munu dómnefndir verða skipaðar í hverju ríki af fagfólki úr tónlistarbransanum sem velja fulltrúa þess með hjálp áhorfenda.

Beðið eftir þessu í 20 ár

Ben Silverman, yfirframleiðandi American Song Contest, er ekki óvanur því að flytja inn evrópskt sjónvarpsefni en hann hefur átt þátt í að aðlaga sjónvarpsþættina The Office, Big Brother og The Weakest Link að bandarískum markaði.

„Ég hef unnið að þessu í 20 ár,“ segir Silverman sem hefur lengi verið aðdáandi Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.

Hann segir að sjónvarpsviðburður með álíka sameiningarkraft gæti ekki komið á betri tíma í Bandaríkjunum.

„Nú þegar Bandaríkin hafa aldrei verið klofnari og við glímum við svo mörg mál sem sundra okkur, þá er menning okkar það eina sem virkilega sameinar.

Telur hann að söngvakeppnin hafi alla burði til að draga fólk að sjónvarpinu og sameinast um ást sína á tónlist.