„Þetta var geggjað og ég verð að segja alveg eins og er að ég hef aldrei upp­lifað svona stemmara á frum­sýningu,“ segir leik­stjórinn Baltasar Kormákur sem for­sýndi nýjustu mynd sína, spennu­tryllinn Beast, í Museum of Modern Art í New York á mánu­daginn.

Baltasar segir til­finninga­þrungin við­brögð á­horf­enda einnig hafa komið honum skemmti­lega á ó­vart en salurinn hafi hrópað upp yfir sig, hlegið, klappað og látið vel í sér heyra.

Kærustuparið Baltasar og Sunneva Ása Weisshappel geisluðu á forsýningunni. Þau hafa unnið náðið saman undanfarið og listakonan sá til dæmis um leikmyndahönnun sjónvarpsþáttaraðanna Katla og Ófærð 3.
Fréttablaðið/Getty

„Ég hef ekki upp­lifað svona í bíó áður en hef heldur ekki verið að gera myndir sem hrekkja fólk svona og láta því bregða svona mikið,“ segir Baltasar sem er búinn að vera á yfir­snúningi ytra.

Balti og Elba gengu í einhvers konar fóstbræðralag í átökunum við ljónið og voru báðir hörkusvalir og Elba sérlega elegant í blá-gráum jakkafötunum.
Fréttablaðið/Getty

„Ég er búinn að vera í ein­hverjum 120 við­tölum á tveimur dögum í New York,“ heldur leik­stjórinn á­fram og bendir á að fram­leiðandinn hafi á­kveðið að af­greiða fjöl­miðla í tengslum við for­sýninguna og að E­verest sé eina myndin hans sem hafi verið for­sýnd með slíku til­standi.

Sá vægast sagt á­búðar­mikli stór­leikari I­dris Elba er í aðal­hlut­verki myndarinnar og Baltasar segir sam­starfið við hann hafa verið sér­lega á­nægju­legt og ekki annað á honum að heyra en Beast marki bæði upp­haf góðrar vin­áttu og frekara sam­starfs þeirra.

Isan Elba, dóttir Idris og leikkonunnar Hanne Nørgaard, fylgdi föður sínum á sýninguna og skartaði sérlega smart, köflóttri Miu Miu blússu og mínípilsi í stíl.

„Það var geggjað að vinna með honum og við erum bara rétt að byrja saman. Við náðum rosa­lega vel saman og erum rosa­lega góðir vinir.“ Baltasar bætir við að þeir Elba séu um margt líkir per­sónu­leikar og vitnar í leikarann því til stuðnings. „Eins og hann sagði þá er ég „brot­her from anot­her mot­her“. Þannig að það eru margir snerti­fletir og þótt hann sé kvik­mynda­stjarna og allt það þá er hann líka fyrst og fremst geggjaður leikari.“

Sabrina Dhowre, eiginkona Elba, var honum til halds og trausts í listasafninu og fangaði athygli viðstaddra og linsur blaðaljósmyndara fyrirhafnarlaust í afskaplega glæsilegu, svörtu dressi sem verður lengi í minnum haft.
Fréttablaðið/Getty

Beast gerist í Suður-Afríku og segir frá hremmingum ekkils og tveggja dætra hans sem komast heldur betur í hann krappann þegar ansi hreint öflugt ljón í miklum dráps­ham verður á vegi þeirra. I­dris Elba leikur föðurinn en Leah Jeffries og I­y­ana Hall­ey fara með hlut­verk dætranna.

Djöfull ertu flottur! Idris Elba er meðal þeirra eftirsóttustu í Hollywood þessi árin enda, eins og Baltasar bendir á, fyrst og fremst frábær leikari þótt hann sé kvikmyndastjarna með öllu sem því fylgir.

Þá lætur suður-ameríski leikarinn Sharlto Copl­ey til sín taka. Hann hefur undan­farið meðal annars leikið í sjón­varps­þáttunum Russian Doll en er lík­lega þekktastur fyrir að hafa farið á kostum í District 9 og hermt er að hann hafi ein­mitt ekki verið jafn góður og í henni fyrr en í Beast.

Al­mennar sýningar á Beast hefjast 19. ágúst vestan­hafs og hún kemur síðan í kvik­mynda­hús á Ís­landi 24. ágúst.