Líklegt er að leikarinn Alec Baldwin og þrír aðrir verði sótt til saka vegna andláts Halynu Hutchins við tökur á kvikmyndinni Rust í fyrra. Einn særðist þegar skotum var hleypt af byssum á tökustað en Baldwin hélt að púðurskot væru í byssunni.

Héraðssaksóknari í Santa Fe, Mary Carmack-Altwies, þar sem voðaskotið átti sér stað, hefur sagt að allt að fjórir verði sóttir til saka ef ákveðið verður að ákæra í málinu. Fjallað erum málið á vef New York Times en þar segir að héraðssaksóknari hafi óskað eftir meira fjármagni vegna málsins til að greiða fyrir það kostnað sem myndi koma til verði ákært í málinu en ljóst er að réttarhöldin myndu vekja mikla athygli.

Á vef Times segir að Carmack-Altwies sé þó skýr í beiðni sinni að engin endanleg ákvörðun hafi verið tekin um ákæru en þar er tekið fram að einn þeirra sem myndi vera ákærður væri leikarinn Alec Baldwin.

Lögreglan í Santa Fe hefur rannsakað málið í um ár en Hutchins var skotin til bana 21. Október í fyrra. Joel Souza, leikstjóri myndarinnar, særðist einnig þegar skotinu var hleypt af.

Baldwin hefur ítrekað haldið því fram að hann beri ekki ábyrgð á voðaskotinu, að hann hafi ekki hleypt af byssunni og að hann viti ekki hvernig alvöru byssukúlur komust á sett kvikmyndarinnar.

Lögmaður Baldwin sagði í yfirlýsingu um beiðni héraðssaksóknarans að engin ákvörðun hefði verið tekin um ákæru og að embættið yrði að fá tíma til þess að fara yfir gögnin. Beiðni héraðssaksóknarans var samþykkt en um var að ræða auka 300 þúsund Bandaríkjadali sem samsvarar um 43 milljónum íslenskra króna.