Guðrún Ýr heldur úti síðunni dodlurogsmjor.is og Instagram-síðunni @‌dodlurogsmjor þar sem hún deilir með þjóðinni kræsingum úr eldhúsinu sínu og því sem á daga hana drífur.

„Það hefur alltaf blundað í mér áhugi á matargerð og bakstri, alveg frá því að ég var ung. Ég hef fengið ófáar spurningar af hverju ég hafi ekki farið út í þetta af meiri alvöru en ég hef haft einhverja þörf að hafa þetta eingöngu sem áhugamál. En það að fara af stað með heimasíðu sem heldur utan um allar mínar uppskriftir hefur þó verið draumur hjá mér í mörg ár. Stundum tekur tíma að manna sig upp í eitthvað líkt og þetta og taka af skarið. Sem ég gerði í byrjun þessara árs og sé ekki eftir því. Ótrúlega skemmtilegt að geta miðlað uppskriftum til annarra og ég er ábyggilega sú sem baka mest upp af henni sjálf.“

„Ætli ástríðan hafi ekki farið á flug eftir að hafa á menntaskólaárum tekið kúrsa í súkkulaðigerð og brauðbakstri í MK og stuttu seinna flutt að heiman og farið að grúska í mínu eigin eldhúsi.“

„Ástríðan skilaði sér síðar inn í eldhús Kruðerís, bakarí Kaffitárs, þar sem ég kom að vöruþróun og naut þess í botn og á sama tíma var ég að skrifa sem lausapenni hjá Gestgjafanum og í framhaldi starfaði ég þar í stuttan tíma, tók eina önn í það meðan ég pústaði og dreif mig af stað í að skrifa meistararitgerðina mína í Menningarstjórnun.

Síðan þá, 2017, hef ég bara notið þess að baka fyrir mitt nánasta og eldað góðan mat. Í lok árs 2019 var ég búin að peppa mig nægilega mikið upp í það að stökkva út í djúpu laugina og fara af stað með síðu. Ég hef lært helling á þessu ári, bakað mikið og eldað. Lært á tæknilegu hliðina á þessu og fikrað mig áfram í ljósmyndun, allt ótrúlega gefandi.“

Hvaðan er nafnið Döðlur og smjör komið?

„Það er skemmtilegt að segja frá því og hef ég lítið farið út í að útskýra það, einhverra hluta vegna. Nafnið vísar til þessara tveggja hráefna sem mér þykja ómissandi í hvert eldhús. Döðlur og smjör er að mínu mati hægt að nota í hvaða matseld og bakstur sem er. Bæði hráefnin eiga heima í sætum bakstri og yfir í dýrindis máltíð. Enda var það algjör tilviljun að ég fór að fókusa á sætmeti á síðunni minni. Hugmyndin var alltaf að setja allan mat þar inn og munu einhverjar góðar mataruppskriftir rata þangað inn á endanum, sem mögulega innihalda döðlur og smjör.

Viðtökurnar við síðunni og instagraminu hjá mér hafa verið ótrúlega góðar og er ég ótrúlega þakklát því. Það eru svo margir frábærir matarbloggarar á Íslandi og bara ótrúlega gaman að vera hluti af því mengi og fá að miðla til annarra.“

Ertu til í að gefa okkur uppskrift að þínum uppáhalds kræsingum fyrir helgarbaksturinn?

„Ég bakaði tvær uppskriftir fyrir ykkur sem eru dásamlegar í helgarbakstur. Eplaskúffukaka með smjörkremi og kardimommusnúðar með súkkulaðifyllingu en þetta eru dásamlegar uppskriftir sem gaman er að bjóða upp. Eplaskúffukakan hefur bókstaflega verið bökuð þrjár helgar í röð heima hjá okkur.“

Þetta eru kræsingarnar sem þú vilt baka um helgina og bjóða upp á með helgarkaffinu.

Glæsileg eplaskúffukaka sem kitlar bragðlaukana og er falleg á diskinum.

Eplaskúffukaka

250 g hveiti

300 g púðursykur

1 tsk. matarsódi

¼ tsk. salt

1 tsk. kanill

220 g smjör

200 ml vatn

100 ml vanilluskyr / ab mjólk

2 egg

1 tsk. vanilludropar

200 g epli

Stillið ofn á 200°C. Vigtið þurrefnin saman í skál, ef þið ætlið að nota hrærivél setjið þá hráefnin í þá skál. Síðan er smjör og vatn sett í pott og hitað á miðlungshita, þangað til suða kemur upp. Slökkvið undir og hellið rólega saman við þurrefnin og hrærið á sama tíma á lágri stillingu. Blandið síðan skyri/ab-mjólk saman við ásamt eggjum og vanilludropum.

Afhýðið og kjarnhreinsið eplin og skerið í smáa bita. Blandið eplunum saman við deigið. Smyrjið fat, sem er minnst 30 cm að stærð hvort sem það er ílangt, kringlótt eða lítil skúffa, að innan með baksturspreyi eða smjöri. Hellið deiginu ofan í fatið og inn í ofn. Bakið í 20-25 mínútur. Leyfið kökunni að kólna í minnst 30 mínútur.

Smjörkrem

250 g smjör, við stofuhita

500 g flórsykur

3-4 msk. rjómi

2 tsk. vanilludropar

1 tsk. kanill

Setjið smjörið í hrærivél og þeytið vel, bætið svo flórsykri varlega saman við ásamt rjóma og vanilludropum og þeytið í nokkrar mínútur. Setjið þriðjung kremsins í skál og blandið 1 tsk. kanil saman við.

Setjið kremið í nokkra sprautupoka með ólíkum stútum eftir því sem ykkur langar og hvað þið eigið. Dreifið þunnu lagi af kremi yfir kökuna og byrjið að sprauta óreglulega yfir kökuna, þangað til hún hefur öll verið skreytt.

Einnig er hægt að einfalda þetta og dreifa kreminu yfir kökuna með sleikju.

Kardimommusnúðar með súkkulaðifyllingu. Ekkert smávegis girnilegir.

Kardimommusnúðar með súkkulaðifyllingu

Snúðar

250 ml mjólk

2 tsk. (6 g) þurrger

400-450 g hveiti

50 g sykur

1 tsk. kardimommur

75 g smjör, við stofuhita

Klípa af salti

Byrjið á því að velgja mjólkina upp í um það bil 37°C í örbylgjuofni eða í potti. Setjið mjólkina í hræriskálina ásamt restinni af hráefnunum. Gott er að byrja að setja 400 g af hveiti saman við og bæta aðeins við eftir þörf ef deigið er vel blautt. Setjið krókinn á vélina og leyfið vélinni að vinna í rúmar fimm mínútur. Einnig er hægt að vinna deigið í höndunum. Deigið er frekar blautt en það á samt að vera hægt að koma við það örstutt án þess klístrast við það. Setjið rakan klút yfir deigið og leyfið því að hefast í minnst klukkustund.

Fylling

100 g smjör, við stofuhita

75 g sykur

4 msk. af kakó

Hrærið öllum hráefnunum saman, ef smjörið er fullkalt er gott að setja blönduna inn í örbylgjuofn í nokkrar sekúndur og hrærið hráefnunum síðan saman.

Samsetning

Þegar deigið er búið að hefa sig, stráið hveiti á borðið og takið deigið úr skálinni og leggið á borðið. Stráið smá hveiti yfir deigið og fletjið út með kökukefli. Reynið að halda deiginu eins ferningslaga og hægt er. Fletjið út þangað til það er orðið vel þunnt.

Dreifið fyllingunni yfir deigið og smyrjið úr henni jafnt yfir það. Brjótið deigið í tvennt, á þverveginn. Rúllið aðeins yfir deigið með fyllingunni í. Takið pitsuskera eða hníf og skerið línur þvert yfir, ca. 2 cm á breidd. Takið hverja línu af deigi og snúið upp á. Það er að sjálfsögðu hægt að rúlla deiginu upp og skera hefðbundna snúða ef við viljum ekkert vera að flækja hlutina frekar.

Leggið snúðana á bökunarpappírsklædda plötu og leyfið að hefast á ný í 30 mínútur.

Kveikið á ofninum og stillið á 200°C, blástur.

Þegar snúðarnir eru tilbúnir penslið þá með eggi og stráið yfir þá perlusykri, þetta er valfrjálst. Snúðarnir settir inn í ofn og bakaðir í 10-12 mínútur. Takið út og leyfið að kólna í smá stund. Njótið svo meðan þeir eru volgir – algjör dásemd.