Gísli Gunnar Didriksen og Zöe eru í umtöluðustu tónlistargrúppu Íslands þessar mundir þó fáir átti sig á því.

Á meðan Ellenar- og Eyþórsbörn syngja sig inn í hjörtu Evrópubúa á stóra sviðinu í Eurovision eru Gísli Gunnar og Zöe í beinni að syngja bakraddir í pínulitlum bólstruðum klefa baksviðs í Júróhöllinni í Tórínó.

Gísli og Zöe eru miklir kumpánar og leyfa sér að flippa í hófi, þó það fari nú aldrei út í sprell.

„Hún er alltaf að reyna að eyðileggja fyrir mér með því að gera svipi á alvarlegum tímapunktum,“ segir Gísli og tekur fram að Zöe hafi enn ekki tekist að eyðileggja feril hans. „Hingað til,“ bætir Zöe við án þess að missa úr takti, enda lærður tónlistarmaður.

Gísli Gunnar er tónlistarmaður og spunanörd sem hefur haslað sér völl sem leikjastjórnandi í Drekum og Dýflissum. Zöe er reyndur pródúsent og tónlistarkona og gaf nýlega út plötuna SHOOK.

Hér fyrir neðan má sjá viðtal Fréttablaðsins við Gísla og Zöe þar sem þau meðal annars sýna glæsilega danshreyfingarnar sem þau taka í atriðinu — ekki fyrir áhorfendur heldur hvort annað í litla klefanum baksviðs.