Miðasala fyrir jólatónleika Baggalúts byrjaði með miklum látum í dag en um ellefu þúsund miðar voru seldir á nokkrum klukkustundum.

„Við erum að minnsta kosti hoppandi kátir,“ segir Guðmundur Pálsson, söngvari Baggalúts, í samtali við Fréttablaðið.

„Við ákváðum að setja allar mögulegar dagsetningar í sölu í einu svo fólk gæti valið strax. Þannig að við byrjum að selja miða á fleiri tónleika en áður og munum ekki vera með aukatónleika eins og hingað til.“

Tónleikarnir verða alls 18 eins og í fyrra. Enn eru miðar til en 112 dagar eru til jóla.

Miðasala á sautján jólatónleika Baggalúts árið 2016 skilaði 124 milljóna króna tekjum. Uppselt var á alla tónleikana.