Sumarið 1946 voru Bandaríkin í heimsfréttunum eftir að hafa varpað tveimur kjarnorkusprengjum á kóralrif og eyjuna Bikini í Kyrrahafinu. Ári síðar kynnti franski hönnuðurinn Louis Réard klæðalítil baðföt í tveimur hlutum og kallaði þau bikiní. Honum gekk illa að fá nógu djarfa fyrirsætu til að sýna bikiníið en á endanum fékkst nektardansmær til að klæðast bikiníi Réards þar sem hann frumsýndi það í Piscine Molitor, vinsælli sundlaug í París. Með það sama urðu bikiní sjóðheitur varningur sem konur kepptust við að eignast og njóta sín í á baðstöðum og við ströndina.

Bikiní sveiflast eftir tískustraumum hvers áratugar en þar fer tískan í hringi eins og annars staðar. Hér má sjá nokkrar af þokkagyðjum heimsins klæðast bikiníum síns tíma.

Bandaríska leikkonan June Haver í dæmigerðu bikiníi þess tíma, árið 1950.
Bandaríska kynbomban og skemmtikrafturinn Jayne Mansfield í hlébarðabikiníi árið 1950.
Bandaríska leikkonan Sharon Tate í silfurlitu bikiníi árið 1960. Sharon var myrt ásamt þremur vinum sínum af Manson-fjölskyldunni á heimili eiginmanns síns, kvikmyndaleikstjórans Romans Polanski árið 1969, þá komin átta og hálfan mánuð á leið.
Franska leikkonan og dýraverndunarsinninn Brigitte Bardot topplaus á sólarströnd árið 1960. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY
Bandaríska leikkonan Goldie Hawn stríðsmáluð á kroppinn og í neon-grænu bikiníi árið 1968.
Bandaríska kynbomban og leikkonan Racquel Welch í glæsilegu, samföstu bikiníi í bandarísku fánalitunum árið 1970.
Sómalska ofurfyrirsætan Iman í svörtu bikiníi og rauðum hælaskóm seint á áttunda áratugnum. Iman er ekkja Davids Bowie. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY
Breska fyrirsætan og leikkonan Rachel Ward situr fyrir í óvenjulegu bikiníi árið 1980. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY
Star Wars-leikkonan Carrie Fisher í koparlitu metalbikiníi árið 1983. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY
Bandaríska ofurfyrirsætan Christie Brinkley klæðist hér bikiníi í anda níunda áratugarins árið 1983. Brinkley var áður gift tónlistarmanninum Billy Joel. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY
Enska leikkonan Elizabeth Hurley í rauðu glitsteinabikiníi árið 2000. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY
Brasilíska ofurfyrirsætan Gisele Bundchen í gylltu pilsbikiníi og með gullfjaðrir á sýningu fyrir Victoria's Secret árið 2000. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY
Bandarískar raunveruleikastjarnan Holly Madison, sem áður var eiginkona Hugh Hefners, útgefanda Playboy, í blómum prýddu og samfelldu bikiníi árið 2010. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY