Fyrir helgina hófust sýningar á nýrri, íslenskri gamanmynd, Ömmu Hófí, en þar mætast enn á ný turnarnir tveir sem löngum hafa gnæft yfir íslenska grínsviðinu: Edda Björgvinsdóttir og Þórhallur Sigurðsson, sem er miklu þekktari sem Laddi.

Í myndinni leika Edda og Laddi eldri borgara sem leggjast í bankarán í ellinni. Gríma Kristjánsdóttir leikur barnabarn Hófíar og tekur undir að þarna sé óhætt að tala um að hún hafi staðið andspænis risum í íslensku gríni.

„Algerlega,“ segir hún og rifjar upp gömul kynni af mótleikurunum sem hún heillaðist af fyrir margt löngu í hlutverkum Stellu og Salómons, í hinni sígildu Stellu í orlofi.

Amen eftir orlofinu

„Þetta var náttúrlega mjög fyndið af því að það er svo undarlegt með mig og mína fjölskyldu, að við horfðum á Stellu í orlofi og Eddu Björgvins bara eins og kristnir lesa Biblíuna. Eða meira.

Ég held við höfum til dæmis horft á hana um hver jól. Alltaf. Ég var sex eða sjö ára þegar ég byrjaði að horfa á hana þannig að sem barn kunni ég hana spjaldanna á milli. Og ég vitna oft í hana í þessum frösum. Ég er ein af þeim,“ segir Gríma, vel meðvituð um að hún er ekki einstakt tilfelli.

„Þannig að þetta var mjög fyndið að hitta goðið sitt og þurfa einhvern veginn að halda aftur af mér með alla þessa frasa,“ segir Gríma um fyrstu fundi hennar Eddu. „Ég missti einhvern tímann eitt út úr mér, en hún tók ekki eftir því. En það var fyndið.“

Útrætt grín

Allt í lífinu hefur tilhneigingu til þess að leita jafnvægis og Stellu vandinn var úr sögunni eftir að leikkonurnar útræddu málið. „En ég meina, svo ræddum við einhvern tímann Stellu í orlofi á settinu og þýðingu hennar í íslenskri kvikmyndasögu og bara svona í kómík yfir höfuð.“

Gríma segir að umræðurnar hafi sprottið upp úr vangaveltum um þráláta tregðu til þess að styrkja framleiðslu grínmynda með fé úr opinberum sjóðum. Þegar talið barst að eðli íslensks gríns hafi svo Stella vitaskuld verið handan við hornið.

„Og þarna er ein risastór mynd sem var ekkert sjúklega vel gerð og kvikmyndatakan ekkert best í heimi, en það er bara lífið í henni. Kómíkin og hversdagurinn eða kómíkin í hversdagsleikanum í Stellu í orlofi sem verður svo fyndin. Hún veigraði sér ekkert við að ræða þessa mynd. Alls ekki. Þannig að þá slakaði ég aðeins á og mátti alveg vitna í myndina,“ segir Gríma og hlær.

Rétti andinn

„Þetta er bara svo hversdagslegt. Þetta kemur fyrir svo marga. Þetta eru náttúrlega svolítið absúrd aðstæður sem koma þarna upp og þarna skipta ekki kvikmyndatakan og peningarnir í myndinni mestu máli heldur andinn og bara leikurinn,“ heldur Gríma áfram og fikrar sig í áttina að þeim göldrum sem geta orðið milli Ladda og Eddu á tjaldinu.

Edda og Gríma í hlut­verkum sínum í Amma Hófí þar sem Gríma reynir að jarð­tengja ömmu sína sem leggur glæpi og banka­rán fyrir sig í ellinni.

„Bara hvað þau ná alltaf mikilli „kemistríu“ saman. Þannig að það eru einhvern veginn sagan og „mómentin“ sem skipta máli í þeirri mynd.

Og nú eru þau saman á ný en kannski ekki í alveg jafn hversdagslegum aðstæðum?

„Þau eru bara eldra fólk sem kemur á elliheimili og líður einhvern veginn eins og þau séu að bíða dauðans og nenna því ekki,“ segir Gríma hlæjandi og bendir þannig á að atburðarás Ömmu Hófí spretti þannig vissulega upp úr hversdagslegum aðstæðum, sem geti af sér „alls konar öðruvísi aðstæður.“

Víkur þá að Grímu þætti Kristjánsdóttur í afbrotasögu ellismellanna. „Mitt hlutverk í þessu er ekki sérstaklega kómískt og er meira svona að binda persónuna hennar Eddu við hversdagsleikann. Ég er barnabarnið hennar og hún er bara amma. Mannleg kona, skilurðu, sem lenti í alls konar og er búin að missa manninn sinn. Ég er svona meira jörð. Binding í þessari mynd,“ segir Gríma og hlær. „En flækist einhvern veginn óvart inn í þetta.“

Lífræn leikflétta

Gríma lék í stuttmyndinni Pleisið eftir Jakob Halldórsson 2009 og bíómyndinni Reykjavík, eftir Ásgrím Sverrisson 2016, en það ár kom hún heim frá námi í Danmörku. „Síðan þá hef ég bara stigið svona frekar létt til jarðar og bara verið í örfáum verkefnum,“ segir Gríma.

„Og í vor ákvað ég að taka smá stefnubreytingu og er að fara í garðyrkjunám, í lífræna ræktun. Það hafði nú reyndar svolítil áhrif á mig að tala við Eddu, því Edda náttúrlega trúir svo mikið á lífrænt fæði,“ segir hún um þann varhug sem mótleikkona hennar geldur við „öllu svona eitri sem við setjum í rauninni í líkamann og sem er náttúrlega stráð yfir allan fjandann.

Sýklalyf í allt kjöt og svona. Ef maður sleppir því þá kannski sleppur maður við þessa verstu sjúkdóma sem herja á mannkynið. Eins og krabbamein og Alzheimer og allt það.

Það er svo erfitt að rannsaka þetta en ég ákvað bara að demba mér í það, svona í og með. Ég ætla náttúrlega ekki að hætta að leika en ég nennti einhvern veginn ekki að vera lengur svona á kantinum. Það var annað hvort það eða að demba mér í eitthvað annað,“ segir Gríma.

„Hann er mettur markaðurinn fyrir leikkonur á Íslandi, þannig að maður verður svolítið að meta þetta. Það er ekki beint hægt að vinna við þetta í fullri vinnu og mig langaði að gera eitthvað.“

Amma Hófí

Sýningar hófust á gamanmyndinni Amma Hófí, eftir Gunnar Björn Guðmundsson, á föstudaginn. Þetta er önnur íslenska myndin sem kemur í bíó eftir að slakað var á samkomubanninu en uppistandsgrínmyndin Mentor reið á vaðið fyrir skömmu.

Laddi leikur Pétur og Edda Björgvins fer með titilhlutverk myndarinnar sem sjálf amma Hófí.

Eldri borgararnir Hófí og Pétur eru olnbogabörn í kerfi sem hefur lítið gagn af þeim lengur. Þau eru orðin leið á aðbúnaðinum á elliheimilinu og ræna banka til að hafa efni á að kaupa sér litla íbúð.

Ýmis ljón eru í vegi þeirra og Hófí og Pétri lendir saman við harðasta handrukkara bæjarins og skósveina hans. Sem betur fer er erfitt að kenna gömlum hundum að sitja og Hófí og Pétur eru hörðustu krimmarnir á elliheimilinu þannig að þau eru ekkert á því að sitja aðgerðalaus og kyrr að óþörfu.

Steindi í hlutverki alræmds handrukkara sem er líklega hollast að hafa sig hægan þegar Edda mundar frethólkinn.

Edda Björgvinsdóttir og Þórhallur Sigurðsson, Laddi, eru í aðalhlutverkunum en auk þeirra fara Sveppi, Steindi Jr, Víkingur Kristjánsson, Anna Svava Knútsdóttir, Gríma Kristjánsdóttir, Pétur Jóhann, Þorsteinn Guðmundsson og Gísli Örn Garðarsson með hlutverk í myndinni.

Gunnar Björn leikstýrir og skrifar handrit myndarinnar en hann á til dæmis að baki myndirnar Astrópía og Gauragangur og áramótaskaup Sjónvarpsins þrjú ár í röð frá 2010-2012 svo fátt eitt sé nefnt.