Fornbókabúðin Bókin og Fold uppboðshús boða til uppboðs á vefnum á bókum frá The Folio Society, uppboðið stendur til 24. apríl næstkomandi.
Á bókauppboðinu að þessu sinni eru einstaklega vandaðar og glæsilegar bækur sem út hafa komið á vegum ensku bókaútgáfunnar The Folio Society.
Folio útgáfan hefur sérhæft sig í útgáfu á bókum í mjög vönduðum búningi og í takmörkuðu upplagi. Hér er því um sannkallaðar viðhafnarútgáfur að ræða.
Mikið er vandað til í útgáfunni, bæði hvað varðar bókband og prentun sem er í hæsta gæðaflokki. Einnig eru flestar bækurnar fallega myndskreyttar og mikið lagt í tilkomumiklar bókakápur.
Bækurnar eru allar mjög vel með farnar. Boðnar verða upp heimsbókmenntir, sem og bækur um sagnfræði og heimspeki. Bókverkin eru úr stóru einkasafni og eru 105 verk á uppboðinu. Bækurnar eru til sýnis í Fold uppboðshúsi allan uppboðstímann.