Kvikmyndir

Mamma Mia! Here We Go Again

***

Leikstjórn: Ol Parker

Aðalhlutverk: Amanda Seyfried, Lily James, Pierce Brosnan, Colin Firth, Stellan Skarsgård

Sjálfsagt er goðgá að líkja B-unum tveimur úr ABBA, þeim Benny Andersson og Birni Ulvaeus, við Lennon og McCartney. Aldrei verður þó af Svíunum tekið að á gullaldarárum ABBA töfruðu þeir á færibandi fram frábær og grípandi lög sem eldast bara ekki. Klassík, sem sagt. Óneitanlega er eitthvað Bítlað við það.

Lífsgleðin, ástin, söknuðurinn, sorgin, dansinn, stuðið og sögurnar í bestu ABBA-lögunum steinliggja sem grunnur að söngleik þannig að Mamma Mia! var og er frábær hugmynd. Kjaftfullt Borgarleikhús mánuðum saman og vinsældir samnefndrar bíómyndar frá 2008 taka þar af öll tvímæli.

Mamma Mia! var þar fyrir utan lífsnauðsynleg gleðisprengja hrunárið skelfilega 2008 og líklega má að einhverju leyti skýra lífseigar vinsældir hennar með því að í eymd og tryllingi eftirhrunsáranna gat fólk bjargað geðheilsu sinni með því að skella sér um stund til Kalokairi og dansa í ósvikinni ABBA-gleði með leikurum sem greinilega skemmtu sér svo vel við gerð myndarinnar að fjörið smitaðist yfir á áhorfendur.

Slíkar vinsældir, með tilheyrandi ofsagróða, kalla óhjákvæmilega á framhald og tíu árum síðar er stefnan tekin aftur á grísku eyjuna þar sem Sophie freistar þess að blása lífi í draum móður sinnar með því að gera Hotel Bella Donna eins og Donna sá það fyrir sér á meðan hún bar Sophie undir belti.

Vinkonurnar fylla skarðið

Til stendur að opna hótelið með glæsibrag þannig að öllum stuðboltum fyrri myndarinnar er stefnt til gleðinnar, með nokkrum viðbótum. Sorglega lítið fer fyrir Meryl Streep að þessu sinni en restin af Donna and the Dynamos, Julie Walters og Christine Baranski, fara á yfirsnúning í gríninu og lyfta myndinni ítrekað. Sérstaklega sú frábæra gamanleikkona Baranski sem stelur öllum sínum senum fyrirhafnarlaust.

Sögunni vindur fram á tveimur tímaskeiðum, í nútíð Sophie og fortíð Donnu þar sem kafað er dýpra ofan í kynni hennar af hinum þremur meintu feðrum Sophie. Þetta samspil fortíðar og nútíðar gefur myndinni heilmikinn sjarma og skörun yngri útgáfa miðaldra pappakassanna sem Pierce Brosnan, Colin Firth og Stellan Skarsgård leika á ný er bráðsniðug.

Cher!

Þessir þrír heiðursmenn glansa í hlutverkum sínum og þegar myndin fer aðeins að dala um miðbikið koma Firth og Skarsgård bókstaflega með fjörið á fullu stími. Þá reynir sem betur fer að þessu sinni lítið á sönghæfileika Brosnans, sem eru engir. En ómóstæðilegir eru þeir, krúttlegir, klaufskir en fyrst og fremst feður með stór hjörtu sem slá fyrir Sophie.

Andy Garcia og hin eina sanna Cher eru æðislegir nýliðar í þessu ABBA-gengi. Garcia hefur aldrei verið jafn fáránlega myndarlegur og töfrandi og Cher, er bara Cher. Stórkostleg í öllum sínum ýkta mikilfengleik og þegar hún leiðir sönginn í Super Trouper. Vá!

Með illum vilja mætti halda því fram að báðar þessar Mamma Mia-myndir séu samhengislaust drasl, runa af tónlistarmyndböndum við ABBA-lög tengd saman með næfurþunnum söguþræði. Að þessari niðurstöðu komast þó sennilega aðeins hjartalaus fífl, bæld og ryðguð á sálinni.

Fyrri myndin var óður til lífsins. Í Here We Go Again svífur dálítill harmur yfir spegilsléttum grískum vötnum gleðinnar þannig að þessi mynd er eins og lífið sjálft. Samhengislaus runa uppákoma, áfalla, gleði, sorgar og tónlistar sem hvert okkar um sig verður að ákveða í hvaða takti það ætlar að dansa við.

Munið vasaklútana

Inn á milli glitra alls konar gullmolar, frábær lög sem snerta hjartastrengi, fyndin og ljúfsár samtöl og af og til ansi góðir brandarar enda er Richard Curtis með puttana í sögunni og handritinu. Hann kann sitt fag í bæði ásta- og gamanmálum. Love Actually, Four Weddings and a Funeral, Notting Hill, Mr. Bean og Blackadder segja allt sem segja þarf um það.

Kolbrún Bergþórsdóttir, stórvinkona mín, varaði mig við því fyrir fram að ég gæti átt á hættu að fella nokkur tár yfir þessari mynd en þyrfti þá ekkert að skammast mín þar sem yfirvegaður gagnrýnandi BBC á besta aldri hefði upplýst að hann hefði beygt af í einu atriði.

Tók því sem betur fer tissjú með mér vegna þess að tárin urðu býsna mörg. Flest gleðitár þó. Þetta er einfaldlega ósköp falleg mynd með dásamlegum ABBA-lögum. Helsti ljóðurinn á þessu framhaldsþjóðráði er samt sem áður að öllum bestu slögurunum var að sjálfsögðu lúðrað út í fyrri myndinni. Fjörið og gleðin hefðu því getað verið enn meiri núna vegna þess að í grunninn er þessi mynd betri en fyrirrennarinn.

Sem B-hlið er Mamma Mia Here We Go Again! þó sprúðlandi fjörug og falleg en yfirvegaður gagnrýnandi Fréttablaðsins sem nálgast besta aldur getur ekki verið með neina væmni. Ég fer því gegn skýrum fyrirmælum tíu ára dóttur minnar um að gefa myndinni fjórar stjörnur. Hún fær þrjár. Eða þið megið bara ráða.

Niðurstaða: Þeim sem finnst þessi mynd leiðinleg, þeir hljóta að vera ryðgaðir á sálinni. Þótt hér séu æðisleg ABBA-lög hengd á þunnan þráð er gleðin og fegurðin slík að það er eiginlega stjórnarskrárbrot að hrífast ekki með. Fínasta B-hlið.