Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, situr ekki auðum höndum þessa dagana eftir að hafa dottið af þingi í kosningunum í september.
Brynjar hefur stundað ræktina af miklu kappi undanfarnar vikur og hefur hann haldið fylgjendum sínum á Facebook upplýstum um gang mála. Hann segir að átakið hafi ekki gengið þrautalaust fyrir sig og nefnir í nýjasta pistli sínum nokkrar ástæður fyrir því.
„Ég hef verið að reyna að læra á öll þessi hættulegu tæki, sem er ekki einfalt. Það fer því ekki vel í mig í viðkvæmum aðstæðum þegar sterkir strákar taka upp því skella mörg hundruð kílóa lóðum í gólfið si svona og öskra jafnvel fyrirvaralaust. Það hefur slegið mig svo út af laginu að ég hef þyngst um hálft kíló eftir hverja ferð í ræktina.“
Brynjar segir að hann hafi oft verið spurður að því hvað hann taki í bekk. Kraftatröllin í ræktinni hafi sett hann á bekkinn og þar hafi honum liðið vel enda vanur að vera á bekknum. „Ég hyggst ekki upplýsa þjóðina um hvað ég tek í bekk en get sagt að stöngin ein sér er mjög þung.“
Brynjar, sem yfirleitt talar tæpitungulaust um það sem honum brennur á hjarta, segir að allt þetta hafi þó verið smámál þegar hann stóð berrassaður í sturtunni eftir allt erfiðið.
„Baðvörðurinn vatt sér að mér reiðilegur á svip og sagði mér að hypja mig umsvifalaust. Ég reyndi að malda í móinn en hann sagði að þeir sem væru með svona brjóst og ekki typpi svo séð verði ættu að vera í kvennaklefanum. Nú skil ég betur þá sem eru að berjast fyrir kynlausu búningsklefunum.“