Karl Bretlandskonungur bað lávarðadeild breska þingsins að bæta Játvarði og Önnu prinsessu á lista yfir staðgengla konungs nái hann ekki að sinna skyldum sínum. Þetta bað hann um í afmælisgjöf en slíkt tíðkast á Bretlandseyjum.
Þetta kom fram í fyrsta þætti Crownvarpsins, viðhafnarhlaðvarpi Fréttablaðsins um Crown þættina á Netflix. Guðný Ósk Laxdal, sérfræðingur í bresku konungsfjölskyldunni ræddi þar málið. Hægt er að hlusta á þáttinn á Spotify undir merkjum Bíóvarpsins og hér neðst í fréttinni.
„En Játvarður var bara í síðasta þætti og er bara með tvær línur,“ segir Guðný sem var hissa á því hve lítið við sögu yngsta barn þeirra Elísabetar og Filippusar kom í nýjustu Netflix seríunni.
„Hann er að fara að koma meira og meira inn en Karl vill fá hann meira til stuðnings við sig í dag,“ segir Guðný. Hún segir það hefð að þjóðhöfðinginn geti beðið stjórnvöld í Bretlandi um afmælisgjafir á afmæli sínu.
Þannig hafi Elísabet til að mynda gert það að sinni síðustu ósk á afmæli sínu að Kamilla myndi hljóta titilinn „Queen consort“ þegar Karl tæki við af Elísabetu sem konungur.
„Karl bað lávarðaþingið um að bæta Önnu prinsessu og Játvarði á lista þeirra sem eru staðgenglar kóngsins ef hann nær ekki að sinna skyldum sínum. Þannig í stað þess að taka Harry og Andrés af listanum, eins og fólk átti von á, þá ákvað hann að bæta við hann,“ segir Guðný.
„Þessi listi virkar ekki þannig að ef þú ert hæstur í erfðaröðinni þá ertu næstur, heldur er bara valið af listanum. Þau voru alltaf fimm en eru í dag sjö.“
Þetta er eins og handhafi forsetavalds?
„Já þetta er svolítið þannig. Þetta er mjög gömul hefð og átti kannski meira við þegar drottningin fór erlendis á Britannicu snekkjunni sinni í marga mánuði, þá er ekkert hægt að skilja landið eftir án þjóðhöfðingja í marga mánuði og þá var hægt að hafa einhvern í hennar stað til að skrifa undir skjöl og þess háttar.“
Hlusta má á þáttinn hér fyrir neðan. Hann er mættur á Spotify undir merkjum Bíóvarpsins.