Spænski hugbúnaðarverkfræðingurinn Mohamed Idries fór nokkuð óhefðbundna leið þegar hann bað kærustuna sína, Lourdes Luque Vilatoro, um að giftast sér. Hann bað hennar nefnilega í Sal 1 í Sambíóunum Egilshöll á undan sýningu kvikmyndarinnar The Matrix Resurrections. Móðurfyrirtæki Sambíóanna, SamFilm, greindu frá þessu á Facebook fyrr í dag.
„Mohamed er mikill rómantíkus og hafði hann skipulagt bónorð sitt til Lourdes í þaula. Parið hafði verið í fríi á Íslandi og fyrir komuna til landsins hafði Mohamed samband við okkur og spurt hvort við gætum hjálpað honum að koma kærustu sinni á óvart. Við hjá Samfélaginu gerum allt fyrir ástina og urðum að sjálfsögðu við þessari ósk.“
Að sögn SamFilm hafði Mohamed „platað“ Lourdes með sér á Matrix en rétt áður en myndin átti að hefjast byrjaði hins vegar að spilast stuttmynd sem hann hafði sett saman sjálfur.
„Stuttmyndin var samansett af klippum frá vinum og vandamönnum sem sögðu frá sinni uppáhalds minningu um Lourdes. Myndin endaði svo á spurningunni; „I have but one thing to ask of you“. Áður en Lourdes vissi af var ástarprinsinn farinn á skeljarnar og bað hana um að giftast sér.“
Til allrar hamingju sagði Lourdes já en ekki fylgir sögunni hvort þau hafi svo horft á myndina eður ei.
Að sögn Jóns Geirs Sævarssonar hjá SamFilm eru bónorð ekki algeng sjón í Sambíóunum en hann man þó eftir einu sambærilegu atviki þar sem bónorð var borið fram í VIP-sal.
