Spænski hug­búnaðar­verk­fræðingurinn Mohamed I­dries fór nokkuð ó­hefð­bundna leið þegar hann bað kærustuna sína, Lour­des Luqu­e Vilatoro, um að giftast sér. Hann bað hennar nefni­lega í Sal 1 í Sam­bíóunum Egils­höll á undan sýningu kvik­myndarinnar The Mat­rix Resur­rections. Móður­fyrir­tæki Sam­bíóanna, Sam­Film, greindu frá þessu á Face­book fyrr í dag.

„Mohamed er mikill rómantíkus og hafði hann skipu­lagt bón­orð sitt til Lour­des í þaula. Parið hafði verið í fríi á Ís­landi og fyrir komuna til landsins hafði Mohamed sam­band við okkur og spurt hvort við gætum hjálpað honum að koma kærustu sinni á ó­vart. Við hjá Sam­fé­laginu gerum allt fyrir ástina og urðum að sjálf­sögðu við þessari ósk.“

Að sögn Sam­Film hafði Mohamed „platað“ Lour­des með sér á Mat­rix en rétt áður en myndin átti að hefjast byrjaði hins vegar að spilast stutt­mynd sem hann hafði sett saman sjálfur.

„Stutt­myndin var saman­sett af klippum frá vinum og vanda­mönnum sem sögðu frá sinni upp­á­halds minningu um Lour­des. Myndin endaði svo á spurningunni; „I have but one thing to ask of you“. Áður en Lour­des vissi af var ástar­prinsinn farinn á skeljarnar og bað hana um að giftast sér.“

Til allrar hamingju sagði Lour­des já en ekki fylgir sögunni hvort þau hafi svo horft á myndina eður ei.

Að sögn Jóns Geirs Sæ­vars­sonar hjá Sam­Film eru bón­orð ekki al­geng sjón í Sam­bíóunum en hann man þó eftir einu sam­bæri­legu at­viki þar sem bón­orð var borið fram í VIP-sal.

Mohamed fór á skeljarnar fyrir framan bíótjaldið.
Mynd/SamFilm