Einstaklega skemmtileg uppákoma varð á sýningunni How To Become Iceandic In 60 Minutes, sem sýnd er í Hörpu, þegar einn áhorfenda bað kærustu sinnar í miðri sýningu. Það var gert í samráði við aðstandendur sýningarinnar og var öllum til mikillar gleði í kvöld. Hamingjusama parið hefur verið hugfangið af Íslandi í nokkurn tíma.

„Ég er svo hamingjusamur,“ sagði þýski stærðfræðingurinn Hans-Peter Nutzinger í samtali við Fréttablaðið í kvöld. Hann hafði þá örfáum mínútum áður beðið kærustu sína, Zoi Karampatzaki, um að giftast sér, og það á íslensku. „Ég hafði beðið Darra [leikari sýningarinnar] um að kenna mér að biðja hennar á íslensku. Svo gleymdi ég því strax en ég bar það fram eins vel og ég gat og hún svaraði með íslensku já-i.“

Sannkallaðir Íslandsvinir

Hans-Peter segir að hann og unnustan hafi komið hingað til Íslands í fyrsta skipti í fyrra og strax orðið ástfangin af landinu. „Þá fórum við gullna hringinn og við vorum svo hrifin að við komum aftur sex mánuðum síðar og keyrðum þá hringveginn,“ segir hann.

„Þegar við komum í seinna skiptið mundi ég svo eftir því sem móðir mín hafði einu sinni sagt við mig. Hún sagði við mig fyrir um 30 árum, eftir að hún millilenti hér á Keflavíkurflugvelli á leið sinni til Bandaríkjanna, að hún myndi einn daginn vilja heimsækja Ísland,“ heldur Hans-Peter áfram. „Í ár ákváðum við því að taka foreldra mína með og fórum hringveginn með þeim á tveimur vikum.“

Þau Hans-Peter og Zoi fara svo heim á morgun. Kvöldið í kvöld er því þeirra síðasta á Íslandi í bili en þau vildu gera eitthvað skemmtilegt með foreldrum Hans-Peters í tilefni þess. „Ég mundi eftir sýningunni frá því í fyrra sem við höfðum mjög gaman af. Svo veit ég ekki alveg hvernig þeirri hugmynd skaut upp í kollinum á mér að biðja hennar á sýningunni.“

Bónorðið hluti af sýningunni

Sýningin How To Become Iceandic In 60 Minutes hefur nú verið sýnd í 8 ár. Um er að ræða grínsýningu þar sem ferðamönnum er kennt hvernig þeir eiga að haga sér eins og Íslendingar og fer hún öll fram á ensku. Höfundur hennar er Bjarni Haukur Thorsson en Sigurður Sigurjónsson leikstýrir. Þeir Karl Ágúst Úlfsson, Kjartan Darri Kristjánsson og Örn Árnason leika svo í henni.

Hans-Peter er lektor í stærðfræði og Zoi er leikskólakennari. Hans-Peter segist vel geta hugsað sér að sækja um prófessorsstöðu við Háskóla Íslands í framtíðinni.

Í samtali við Fréttablaðið sagði Kjartan Darri að sýningin væri sú mest sýnda á landinu en nýlega sýndu þeir félagar hana í sjö hundraðasta skipti. „Þetta var frábært. Bjarni, höfundurinn, samþykkti að leyfa mér að gera þetta og kom mér í samband við leikarann Darra sem að samþykkti þetta hiklaust,“ segir Hans-Peter.

Hann segist hafa verið með ákveðna hugmynd um hvernig hann vildi framkvæma bónorðið og að Darri hafi samþykkt hana án umhugsunar. „En þegar við vorum á sviðinu held ég að ég hafi ekki falið hringinn alveg nógu vel. Það er partur í sýningunni þar sem áhorfendur labba á svið og læra að ganga eins og Íslendingar,“ heldur Hans-Peter áfram.

„Þá var planið að ég myndi láta eins og ég fyndi hringinn á gólfinu fyrir slysni en þegar ég var á leið á hnén til að taka upp hringinn sá hún hann og byrjaði strax að gráta. Ég held að hún hafi því svarað játandi áður en ég spurði,“ segir hann og hlær.

Líður eins og heima á Íslandi

Þau skötuhjú eru nú í skýjunum eftir kvöldið, í raun bókstaflega því þau fagna nú trúlofuninni á SKY-bar í Reykjavík. Aðspurð segja þau engan vafa leika á því að þau komi aftur hingað til Íslands. „Hjartað segir okkur alltaf að vera hér um kyrrt. Þannig að við förum strax að skipuleggja næstu ferð fyrir næsta ár,“ segir Hans-Peter. „Í hvert skipti sem við lendum í Keflavík líður okkur eins og við séum að koma heim til okkar. Þannig ég er mjög viss um að við heimsækjum landið á ný, já.“

Hans-Peter er lektor í stærðfræði við háskóla í heimabæ sínum eins og er. Hann segir það eðlilegt næsta skref á sínum akademíska ferli að ná sér í prófessorsgráðu. „Ef að það vantar stærðfræðiprófessor í háskólann hérna einn daginn hugsa ég að ég sæki um stöðuna,“ segir hann glaður í bragði. Zoi er leikskólakennari en þau búa saman í suðurhluta Þýskalands, rétt fyrir utan Stuttgart.

„Ég er virkilega ánægður. Það var frábært að Harpa og sýningin hafi leyft mér að gera þetta. Þetta var mjög skemmtilegt,“ segir Hans-Peter að lokum.