Back to the Future snýr aftur, í þetta sinn sem söngleikur í Adelphi leikhúsinu í West End í London.

Robert Zemeckis og Bob Gale, mennirnir sem gerðu upprunarlegu myndirnar, unnu að leikgerð að verkinu upp úr upprunarlega kvikmyndahandritinu og Alan Silvestri, sem gerði tónlistina fyrir kvikmyndirnar, semur lögin fyrir söngleikinn ásamt tónskáldinu Glen Ballard.

Marty í hlöðunni hjá Old Man Peabody þegar hann ferðast fyrst aftur í tímann.
Mynd: Sean Ebsworth Barnes

Back to the Future kom út árið 1985 og var framleidd af Stephen Spielberg. Michael J. Fox lék aðalhlutverkið Marty McFly, Christopher LLoyd lék Doc Brown, Crispin Glover lék George McFly, föður Marty, Lea Thompson lék Lorraine Baines-McFly, móður Marty og Thomas F. Wilson lék eineltissegginn Biff.

Michael J. Fox, Thomas F. Wilson, Christopher Lloyd og Lea Thompson á endurfundi árið 2015.

Kvikmyndin, og nú söngleikurinn, fjallar um Marty, ungling sem fer óvart til fortíðarinnar frá árinu 1985 til ársins 1955. Hann hittir foreldra sína í menntaskóla og verður móðir hans hrifin af honum sem verður til þess að Marty þarf að fá foreldra sína til að verða ástfangnir á ný. Auk þess þarf hann að finna leiðina aftur til 1985.

Líkt og frægt er orðið átti Eric Stoltz upphaflega að leika Marty McFly þegar Michael J. Fox hafnaði hlutverkinu þar sem hann var að leika í sjónvarpsþáttaröðinni Family Ties. Eftir að tökur hófust áttuðu framleiðendur myndarinnar sig á því að það höfðu verið mistök að ráða Stoltz og buðu Fox hlutverkið aftur.

Myndin var gríðarlega vinsæl þegar hún kom út með 380 milljónir dollara í hagnað. Þær hafa síðan þá notið mikilla vinsælda sem náðu hámarki á hátíðarárinu 2015, árið sem Marty ferðast til í annarri kvikmyndinni.

Hér fyrir neðan má sjá stiklu úr söngleiknum.