Banda­rísku Bachelor stjörnurnar Jade Roper Tol­bert og eigin­maður hennar, Tanner Tol­bert, eru sökuð um að hafa svindlað þegar þau unnu eina milljón banda­ríkja­dollara í fanta­sí­deild banda­ríska fót­bolta­deildarinnar NFL um helgina. E News greinir fráen parið hafnar á­sökunum með öllu.

Net­verjar voru fljótir að veita því at­hygli að efst á lista banda­rísku veð­mála­síðunnar Draft Kings í deildinni var hin áður­nefnda Jade. Þau eru sökuð um að hafa unnið saman í leiknum, sem miðar að því að velja leik­menn úr NFL liðum en Tanner er þekktur fantasí­spilari.

Hver og einn má velja 150 lið og full­yrða net­verjar að parið hafi saman verið með 300 mis­munandi lið í keppninni. Sam­kvæmt reglum keppninnar er slík strang­lega bannað.

„Það átta sig allir á því að þau tvö kepptu saman og deildu leik­manna­vali sínu? Og það er ó­lög­legt,“ skrifar einn net­verja. „Hún og eigin­maður hennar svindluðu, það er ekki flóknara en það,“ skrifar annar.

Tanner hefur sjálfur svarað á­sökunum en þau hjónin kynntust í annarri seríu af Bachelor in Para­dise sem sýnd var árið 2016. Hann hafnar því al­farið að maðkur hafi verið í mysunni, þau hafi unnið með eins­kærri heppni.

„Það er ó­trú­lega mikil­vægt að við komum því á fram­færi að sigur Jade var ekkert nema hrein heppni og við erum mjög viss um að Draft­Kings muni komast að sömu niður­stöðu,“ segir í til­kynningu frá honum. Fyrir­tækið hefur til­kynnt að það muni skoða málið.

„En á sama tíma er það til­efni til í­hugunar, hvort að spurningarnar, á­sakanirnar og for­vitnin vegna þessa sigurs hefði verið hin sama ef sigur­vegarinn hefði verið karl­kyns og ein­hver sem var ekki þekktur?“