Victoria Larson, Bachelor keppandi í nýjustu seríunni, brást nýverið við á Instagram vegna nýjustu frétta erlendra slúðurmiðla af því að hún hafi verið handtekin vegna búðarhnupls árið 2012.
Victoria hefur vakið mikla athygli í nýju seríunni. Þar er enda hennar eina starfsheiti að vera „Drottning.“ Í frétt US Weekly af máli hennar kemur fram að hún hafi verið handtekin í júlímánuði árið 2012 í Tallahassee í Flórída.
Þar hafi hún gert tilraun til þess að stela vörum úr matvöruverslun að andvirði 250 Bandaríkjadollara, eða því sem nemur rúmum 32 þúsund íslenskum krónum. Hún er sögð hafa sett vörurnar í eigin endurnýtanlegan poka við sjálfsafgreiðslukassa.
Í umfjöllun miðilsins segir að Victoria hafi þvertekið fyrir að hafa hnuplað vörunum úr búðinni þegar lögreglan mætti á staðinn. Hún hafi hinsvegar að lokum gefið sig og í kjölfarið verið dæmd í sex mánuða skilorðsbundið fangelsi auk þess sem hún varð að greiða háar upphæðir í sektargreiðslur og sækja endurmenntunarnámskeið.
Í færslu sinni á Instagram þar sem Victoria virðist bera af sér blak vegna málsins vitnar hún í biblíuna. Instagram aðgangur hennar hefur í kjölfarið verið læst. „Sérhver dýrlingur á sér fortíð og hver syndgari á sér framtíð,“ segir hún.
