Victoria Larson, Bachelor keppandi í nýjustu seríunni, brást ný­verið við á Insta­gram vegna nýjustu frétta er­lendra slúður­miðla af því að hún hafi verið hand­tekin vegna búðar­hnupls árið 2012.

Victoria hefur vakið mikla at­hygli í nýju seríunni. Þar er enda hennar eina starfs­heiti að vera „Drottning.“ Í frétt US We­ekly af máli hennar kemur fram að hún hafi verið hand­tekin í júlí­mánuði árið 2012 í Talla­hassee í Flórída.

Þar hafi hún gert til­raun til þess að stela vörum úr mat­vöru­verslun að and­virði 250 Banda­ríkja­dollara, eða því sem nemur rúmum 32 þúsund ís­lenskum krónum. Hún er sögð hafa sett vörurnar í eigin endur­nýtan­legan poka við sjálfs­af­greiðslu­kassa.

Í um­fjöllun miðilsins segir að Victoria hafi þver­tekið fyrir að hafa hnuplað vörunum úr búðinni þegar lög­reglan mætti á staðinn. Hún hafi hins­vegar að lokum gefið sig og í kjöl­farið verið dæmd í sex mánuða skil­orðs­bundið fangelsi auk þess sem hún varð að greiða háar upp­hæðir í sektar­greiðslur og sækja endur­menntunar­nám­skeið.

Í færslu sinni á Insta­gram þar sem Victoria virðist bera af sér blak vegna málsins vitnar hún í biblíuna. Insta­gram að­gangur hennar hefur í kjöl­farið verið læst. „Sér­hver dýr­lingur á sér for­tíð og hver syndgari á sér fram­tíð,“ segir hún.

Mynd lögreglunnar af Victoriu eftir búðarhnuplið frá árinu 2012.
Mynd/Lögreglan í Tallahassee