Listasafn Sigurjóns Ólafssonar býður, í samstarfi við Safn RÚV, til Bach-hátíðar í safninu á Laugarnesi næstkomandi þrjá sunnudaga, 15., 22., og 29. maí, klukkan 17. Þá gefst áheyrendum kostur á að hlýða á sjaldheyrðar upptökur með leik Björns Ólafssonar konsertmeistara og þýska fiðlusnillingsins Adolfs Busch ásamt kammersveit. Upptökur þessar eru úr fórum Ríkisútvarpsins og hefur Hreinn Valdimarsson yfirfært þær á stafrænt form og hljóðhreinsað. Hlýtt verður á upptökurnar úr hljóðkerfi frá Stúdíó Sýrlandi. Hlíf Sigurjónsdóttir kynnir.
Á fyrstu tónleikunum, 15. maí, verða endurteknir tónleikar sem haldnir voru í Trípólí bíói fyrstu dagana í september 1945, þar sem Adolf Bush lék einleik með íslenskri kammersveit. Hlíf Sigurjónsdóttir fjallar um áhrif heimsóknar Adolfs Busch til Íslands á Björn Ólafsson.
Á síðari tónleikunum verða fluttar hljóðritanir Björns Ólafssonar á fimm fiðlueinleiksverkum Johanns Sebastian Bach sem hann hljóðritaði í Útvarpshúsinu á Skúlagötu á árunum 1959-1961.