Í afar áhugaverðum umræðum á spjallborðsvefnum Reddit ræða notendur um það hvaða ákvarðanir um leikaraval í Hollywood eru þær verstu frá upphafi. 

Flestir týna að sjálfsögðu til nokkrar vel þekktar ákvarðanir sem þótt hafa almennt heppnast illa, líkt og Hayden Christiansen sem Anakin Skywalker í Star Wars forleiknum og Tom Cruise sem Jack Reacher. 

Einn notandi fær þó meiri athygli heldur en aðrir en hann heldur því fram að baby born dúkkan sem notuð var í stað raunverulegs barns í kvikmyndinni American Sniper og Bradley Cooper hélt á sé versta leikaravalið í sögu Hollywood.

Sér til stuðnings vísar notandinn í myndband af umræddri senu þar sem hinn margrómaði leikari, sem meðal annars leikstýrði hinni sífellt vinsælu mynd A Star Is Born, sést halda á „barninu“ og rugga því í afar dramatískri senu.

American Sniper kom út árið 2014 í leikstjórn Clint Eastwood og hlaut mikla athygli og var meðal annars tilnefnd til nokkurra Óskarsverðlauna. Myndin þótti gefa mjög raunsæja mynd af lífum fyrrverandi hermanna og fylgir eftir lífi hermanns í Afganistan. Umrætt atriði stingur því nokkuð í stúf við afgang myndarinnar. 

Framleiðendur myndarinnar hafa áður útskýrt að ætlunin hafi verið að nota alvöru barn í umræddri senu en að það hafi veikst rétt fyrir tökur og því hafi dúkkan verið notuð sem skyndiredding.

Í viðtali við Ellen frá árinu 2015 sem má sjá hér að neðan er gert stólpagrín að umræddu atriði og þar tjáði Cooper sig um dúkkuna. „Ég bókstaflega trúði þessu ekki. Ég hugsaði bara með mér að þetta væri algjör klikkun. En ég verð að segja að ég varð ástfanginn af þessari dúkku.“

Hér að neðan má sjá umrætt atriði en umræður um atriðið hefjast þegar ein mínúta og 38 sekúndur eru liðnar.