Prikið við Bankastræti ætlar að láta á það reyna að bjóða bara upp á veganfæði út janúar. Geoffrey Huntington-Willams, einn eigenda staðarins, segir rekstraraðilana hafa lengi langað að láta á þetta reyna en Örn Tönsberg, einnig þekktur sem Össi, er hugmyndasmiðurinn að baki B12.

U-beygja

„Við ákváðum að taka smá U-beygju þegar það kemur að eldhúsinu hjá okkur. Hingað til hefur Prikið verið þekktast fyrir klassískan þynnkumat, egg og beikon í morgunmat og hamborgarana. Kjötið hefur verið áberandi en við höfum bætt okkur mikið síðustu ár og höfum verið með flottan veganmatseðil í tvö ár sem við gerðum í samstarfi við Össa,“ segir Geoffrey.

Honum finnst mikilvægt að rekstraraðilar axli ábyrgð og leggi sitt af mörkum þegar það kemur að því að bjóða upp á grænkerafæði, því að sjálfsögðu sé það okkur ekki einungis gott heldur stuðli að velferð dýra og minni mengun.

„Við höfum áður gert þetta með góðum árangri, að vera með pop-up stað og breyta til tímabundið. Það var gert í samstarfi við KORE og gekk svo vel að í dag er eigandi þess staðar, Atli Snær, yfirmaður eldhúss Priksins. Núna ætlum við að láta reyna á þetta aftur og bjóða einvörðungu upp á veganfæði úr eldhúsinu okkar, við erum búin að fjarlægja allt sem er ekki vegan og taka eldhúsið í gegn. Þetta er hugarfóstur Össa en þeir Atli unnu seðilinn saman. Við köllum þetta B12 sem er svolítið skemmtilegt, því Prikið er statt við Bankastræti 12,“ segir Geoffrey.

Sætkartöflu franskar með sterkum kjúklingabaunum, vorlauk, pikkluðu rauðkáli og sterkri aji verde sósu, fá líklega marga til að sleikja út um.

„Svo er B12 að sjálfsögðu mikilvægasta vítamínið fyrir þá sem takmarka neyslu kjöts eða eru vegan. Þetta er eina vítamínið sem þú færð ekki úr grænkerafæði. En það er allt í lagi, það er lítið mál að taka inn B12. Það verður B12 á svæðinu skilst mér,“ segir Össi.

„Já, öllum verður velkomið að koma á barinn og fá B12 í boði hússins,“ segir Geoffrey.

„Svo er þetta líka bara áminning til fólks að taka B12,“ svara Össi.

Ekki sérstakir heilsuréttir

„Við hlökkum mikið til að sjá hvernig þetta virkar og við sem erum að reka staðinn höfum mjög mikla trú á þessu. Við vitum að það er rosalega sterkt og gróskumikið vegansamfélag á Íslandi. En við erum ekki endilega bara að reyna að höfða til þeirra, við lítum líka á þetta sem tækifæri til að sýna öðrum hvað vegan matur getur verið góður. Okkur langar að stuðla að aukinni víðsýni viðskiptavina okkar. Þetta eru heldur ekki einhverjir sérstakir heilsuréttir, þetta er alveg enn þá Prikið svo sumir réttirnir eru algjör þynnkumatur, bara „doing’t it right“,“ segir Geoffrey.

Maís með hvítlauksmæjó, kóríander, vegan-parmesan og cayenne-pipar.

Þeir segja matseðilinn ekki stóran en mikið hafi verið lagt í hvern rétt. Svo verður reglulega boðið upp á nýja rétti sem ekki eru á seðlinum sjálfum.

„Við erum að þróa þetta áfram, okkur langar að hafa þetta svolítið lifandi,“ segi Össi.

Einfaldaði lífið

Össi gerðist vegan fyrir tæplega fimm árum á afmælisdaginn sinn.

„Ég horfði á kvikmynd um veganisma þar sem maður sá allt það ljóta á bak við kjötiðnaðinn. Síðan þá hef ég verið vegan, ég tók ákvörðun og hef staðið við hana. Fyrst voru þetta mikil viðbrigði enda var mun minna vöruúrval þá en er núna. Svo kemst þetta í rútínu og vana, eftir smá tíma hættir maður að hugsa um það. Ég pæli ekki mikið í því í dag að ég sé vegan því það er bara partur af manns undirmeðvitund. Hinn heimurinn er ekki lengur til. Það einfaldaði líf mitt til muna að þurfa ekki að spá í mörgum fleiri þáttum en akkúrat þessu. Það er ekkert flókið í dag að vera vegan,“ segir Össi.

„Já, alveg rétt hjá þér, þú getur bara labbað inn á Prikið og pantað þér eitthvað,“ segir Geoffrey og þeir hlæja báðir.

„Meira að segja bjórinn er vegan,“ bætir hann við.

Veganseðillinn verður í boði út mánuðinn, mögulega lengur verði viðtökurnar góðar.