Samkvæmt Kára er brýn þörf á starfandi sjúkraþjálfara með atvinnuhljóðfæraleikurunum. „Þetta eru í raun ekkert annað en atvinnuíþróttamenn, nema að íþróttin er tónlist en ekki fótbolti. Að vera hljóðfæraleikari í sinfóníuhljómsveit er mjög líkamlegt starf og því fylgja álagsmeiðsl líkt og í íþróttum. Það er margt sem tónlistin og íþróttir eiga sameiginlegt og eflaust mun meira en flestir gera sér grein fyrir. Sem dæmi þá eru bæði tónlistar- og íþróttafólk undir miklu æfinga-, keppnis- og tónleikaálagi og því fylgir óhjákvæmilega hátt algengi álagsmeiðsla. Báðir hópar sömuleiðis starfa í umhverfi þar sem kröfurnar um nánast fullkomna frammistöðu eru ávallt til staðar og því fylgir eðlilega mikið andlegt álag.

Þegar ég útskýri eðli málsins skilur fólk yfirleitt fljótt þörfina. Margir hafa jafnvel orðið áhugasamir í kjölfarið um líkamlega þáttinn í tónlistarflutningi og farið að horfa á tónlistarmenn með sjúkraþjálfaraaugum.“

Samkvæmt Kára er tónlistarheimurinn þó talsvert á eftir íþróttunum þegar kemur að nútímaþjálfunarfræði. „Það er stundum ansi langt í land að brjóta upp aldagamlar venjur sem stangast margar hverjar á við nútíma þjálfunarvísindi. Það er ekki mjög langt síðan það var í raun samþykkt innan tónlistarheimsins að það væri æskilegt að tónlistarmenn stunduðu íþróttir eða einhverja hreyfingu samhliða tónlistinni,“ segir Kári.

Kári hefur kennt námskeiðið „Líkami, list og heilsa“ við tónlistardeild Listaháskólans í fimm ár. „Þann vettvang nota ég óspart til þess að planta heilsueflingarfræinu. Þar kynni ég nemendur fyrir töfrum styrktarþjálfunar og hvernig lífið og sérstaklega hljóðfæraleikurinn verður auðveldari með smá kjöt á beinunum. Ég er mikill áhugamaður um hollar æfingavenjur, þjálfunarsálfræði og hvernig við getum notað alla þá þjálffræðiþekkingu sem við höfum frá íþróttunum til þess að búa til eins hrausta tónlistarmenn og við mögulega getum.“

Sameinar tvo heima

Sérsvið Kára er fyrst og fremst tengt íþrótta- og bæklunarsjúkraþjálfun, en hann er sérfræðingur í bæklunarsjúkraþjálfun. Hann lauk meistaragráðu í Performing Arts Medicine frá University College London haustið 2016, með sérhæfingu í meðhöndlun tónlistarmanna og dansara. Þá hefur hann starfað sem sjúkraþjálfari hjá ýmsum íþróttaliðum. „Ég reyni að yfirfæra nýjustu þekkingu úr íþróttavísindunum og aðlaga eftir bestu getu að tónlistarheiminum. Ég er líka mikill áhugamaður um axlir, háls og efri útlimi eins og þeir leggja sig og því kemur sér það vel að starfa með hljóðfæraleikurum því næg er notkunin á þessum líkamspörtum við hljóðfæraleik.“

Kári tók við Sinfóníuhljómsveit Íslands haustið 2016. „Okkar fyrsta verkefni var að taka alla sveitina í stoðkerfisskimun sem var mjög skemmtilegt og gaf mér gott tækifæri til þess að kynnast sveitinni og þessum klassíska heimi. Samstarfi okkar er þannig háttað að hljóðfæraleikarar leita til mín á stofuna sem ég starfa á þegar þau þurfa á að halda.“

Þó að flestir hljóðfæraleikarar þurfi á honum að halda tekur Kári þó eftir að strengjaleikararnir þurfi sérstaka athygli umfram aðra tónlistarmenn. „Ég er farinn að kalla þau axla-maraþonhlaupara en þau spila alveg ógurlega mikið og eru gjarnan að allan tímann sem sveitin er á sviðinu. Það er ekkert grín að halda handleggjunum uppi í 1-2 klukkustundir.“

Fjör á tónleikaferðalögum

„Síðan árið 2018 hef ég farið með þeim í tónleikaferðalög og þar má segja að hlutverk mitt sé meira fólgið í því að slökkva elda svo að sýningin geti haldið áfram. Fyrsta árið flökkuðum við í 3 vikur um Japan sem var algjörlega meiriháttar ævintýri. Í fyrra tókum við svo viku í Austurríki og Þýskalandi og í febrúar fórum við í tíu daga rúnt um Bretland. Á þessum ferðalögum hef ég þurft að bregða mér í alls konar hlutverk, eins og að hlaupa út í apótek rétt fyrir tónleika og græja einhver lyf, enda getur ýmislegt komið upp á.“