Axl Rose, söngvari Guns N´Roses, flaug af landi brott í morgun eftir tæplega tveggja vikna dvöl hér á landi. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins ferðaðist Axl með morgunflugi Icelandair til London.

Axl og félagar héldu sögulega tónleika hér á landi þann 24. júlí síðastliðinn sem tæplega 7 prósent landsmanna sóttu. Axl virðist þó hafa verið sáttur með land og kaus að dvelja hér á landi í tæpar tvær vikur til viðbótar. Ekki er ljóst hvað kappinn bardúsaði hér á landi í þennan langa tíma en honum er annt um einkalíf sitt, veitir örsjaldan viðtöl og hefur lítið tekið þátt í samfélagsmiðlafári síðustu ára.

Líkt og fyrr segir voru tónleikarnir einkar vel sóttir og var það kátur hópur aðdáenda sem dilluðu sér við hina ýmsu slagara reynsluboltanna.

Það er þó ekki furða að Axl hafi viljað njóta lífsins hér á landi og slaka á eftir tónleikana, enda eflaust langþreyttur eftir langt tónleikaferðalag. Ísland var endastöðin löngu hljómleikaferðalagi hópsins, Not in This Lifetime, sem hófst í mars 2016. Að baki er því ótrúlegur fjöldi tónleika. Axl sagði í einkaviðtali við Fréttablaðið í síðasta mánuði að hljómsveitin reyndi einfaldlega að gera sitt besta fyrir áhorfendurna og að þeim hefði alla tíð langað að koma til Íslands.