„Ég er bara eins og blómi í eggi. Ég á svo góða fjölskyldu. Fimm börn á heimilinu og frábær kona,“ segir Axel Pétur Axelsson sem býr í Svíþjóð þaðan sem hann greinir og setur fram samsæriskenningar á YouTube-rás sinni FrelsiTV.

Axel Pétur var svo gott sem fastur liður í útvarpsþættinum Harmageddon á meðan hann var í loftinu og var þar tíðrætt um falska fána þegar þeir Frosti og Máni, eða „geðgreinendurnir“ eins og hann kallar þá, slógu reglulega á þráðinn til hans.

„Það er ágæt þjónusta að fá svona geðrannsókn á tveggja vikna fresti. Ekkert að því,“ segir Axel Pétur og bætir við að ekki sé laust við að hann sakni Harmageddon dálítið og þess að heyra ekki reglulega í þeim Mána og Frosta. „Ég sakna þess að fá ekki reglulega geðgreiningar.“

Geðgreiningum Mána og Frosta á Axel Pétri lauk með Harmageddon.
Fréttablaðið/Ernir

Þorkell Máni Pétursson og Frosti Logason hættu, eins og sjálfsagt alþjóð veit, með Harmageddon undir lok síðasta mánaðar eftir fjórtán farsæl og umdeild ár. Axel Pétur segist hafa það frá Frosta að mestu lætin og símtölin í kringum þáttinn hafi verið þegar þeir töluðu við hann og sjálfum sér líkur er hann vitaskuld með samsæriskenningu um endalok þáttarins sem hann útilokar ekki að megi rekja til þess hversu oft þeir félagar heyrðu í honum.

„Þú ert fyrsti sem hringir eftir andlát Harmageddon. Þú færð eina stjörnu í kladdann fyrir það. Þú varst í mínus þrettán en ert þá kominn í mínus tólf. Þeir eru alveg frábærir drengir, báðir tveir,“ segir Axel Pétur um þá Harmageddon-bræður.

„Við Frosti höfum reyndar átt betur skap saman. Ég veit að Máni var orðinn leiður á mér. Frosta fannst alltaf spennandi að heyra í mér,“ segir Axel Pétur fullur skilnings. „Ég er mjög meðvitaður um að ég er umdeildur.“