Hver er þín fyrsta minning um golf?

Þegar ég fór að fara, sjö ára gutti, út á Korpúlfsstaðavöll með pabba mínum, Hákoni Hákonarsyni.

Hver kveikti í þér golfbakteríuna?

Það var pabbi sem dró mig með sér í golfið og þannig byrjaði ég. Tigerinn (Woods) var að koma fram á sjónarsviðið á þessum tíma og ég horfði auðvitað mikið upp til hans.

Hvað heillaði þig við sportið?

Golf er frekar krefjandi íþrótt og ég var yfir meðalgetu, en svo er það alltaf félagsskapurinn sem heillar.

Hvað kom til að þú ákvaðst að gerast PGA-golfkennari?

Planið var alltaf að reyna fyrir sér sem atvinnumaður en það er virkilega strembið fjárhagslega og ég var ekki tilbúinn til að fara alla leið. Á sama tíma var PGA á Íslandi að byrja með nýjan árgang í golfkennaraskólann, þannig ég ákvað að slá til og skráði mig.

Geta allir lært að spila golf?

Algjörlega.

Er öllum gefið að slá holu í höggi?

Já, það geta allir farið holu í höggi en líkurnar á því fyrir meðal kylfing er í kringum einn á móti þrettán þúsund. Æfingin skapar meistarann í því eins og öðru; hún skaðar allavega ekki möguleikana.

Arnar Snær segir mikilvægt að læra undirstöðuatriði í réttri hreyfingu við golfiðkunina, því erfitt geti verið að leiðrétta það seinna meir. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Hvers vegna er byrjendum ráðlagt að leita til golfkennara?

Golf er nokkuð tæknilega flókin íþrótt og því mikilvægt að skilja undirstöðuatriðin í hreyfingunni. Það er auðvelt að venja sig á alls konar vitleysu í golfi, þá sérstaklega í golfsveiflunni og getur verið erfitt að leiðrétta það seinna meir.

Hver kenndi þér golf og á því tökin?

Pabbi kenndi mér golf fyrst, en síðan hef ég verið með mjög marga þjálfara í gegnum tíðina, þar af var minn síðasti Brynjar Eldon Geirsson.

Fer golfáhugi landsmanna vaxandi og hverjir sækja þá helst í golfið?

Já, alveg klárlega, sérstaklega eftir að Covid byrjaði. Þá var ekki lengur hægt að ferðast til útlanda og maður sá mikla sprengingu, bæði hjá fólki sem var að prófa að spila golf í fyrsta skipti en líka kylfingum sem voru að byrja aftur; fólk á aldrinum 30 til 65 ára. Golf er enda frábært sport fyrir allan aldur og um daginn var ég með eldri mann í kennslu sem orðinn var 83 ára og með hörkusveiflu.

Hvar hefur þér þótt skemmtilegast að spila golf og ferðu oft á golfvöllinn til að spila sjálfur?

Flestallir golfvellir á Íslandi eru skemmtilegir en uppáhaldsvöllurinn er á Korpúlfsstöðum. Svo snýst golfið líka mikið um félagsskapinn því það er hann sem gerir þetta gaman. Völlurinn er aukaatriði.Síðustu ár hef ég spilað alltof lítið eftir kennslu alla daga, en stefnan er að breyta því í sumar.

Hægt er að setja sig í samband við Arnar Snæ á arnarsn@grgolf.is