María Gomez heldur úti matarblogginu Paz.is sem ætlað er nautnaseggjum sem hafa gaman af því að baka og elda góðan mat án mikillar fyrirhafnar, en flestar uppskriftirnar eru í einfaldari kantinum. María er mikill sælkeri og segist alltaf hafa haft gaman af því að reyna fyrir sér í eldhúsinu og fáum við að birta úrval uppskrifta úr fórum hennar. 

600 gr korn, hvaða korn sem er (ég nota oftast hvítt hveiti en hef líka notað spelt og einnig blandað saman spelti og hveiti)

1 tsk borðsalt

1 bréf þurrger

5 dl volgt vatn

Þetta er grunnurinn og hann er góður einn og sér, en ef ég vil gera brauðið meira gourmet þá er hægt að setja eitthvað gott útí, t.d. sólblómafræ eða annars konar fræ, fetaost og ólífur, sólþurrkaða tómata eða bara hvað sem ykkur dettur í hug.

Í þessari uppskrift bætti ég svörtum og grænum ólífum við og fetaosti.

Öllum þurrefnum er blandað saman í skál og hrært saman með matskeið eða sleif.

Ef þið ætlið að setja eitthvað útí brauðið þarf að gera það á þessu stigi og hræra vel við þurrefnin.

Svo er 5 dl af ylvolgu vatni bætt við og hrært í skálinni með sleif. Það þarf ekki að hnoða deigið og það er líka allt í lagi að það sé ekkert alveg 100 % blandað saman.

Reynið að hræra sem minnst en þannig að deigið blandist sem mest saman. Ef hrært er of mikið getur brauðið orðið seigt og þungt í sér.

Svo er matarfilma sett yfir skálina og deigið sett í ísskáp þar sem það er látið standa yfir nótt.

Morguninn eða daginn eftir er deigið svo tekið út þegar það á að fara í ofninn.

Ég set alltaf hring af bökunarformi á bökunarplötu með smjörpappír og svo er bara að hella deiginu ofan í hringinn. Ekkert hnoð hér heldur bara setja það ofan í og skiptir það engu máli þá það sé ólögulegt.

Það er ekki nauðsynlegt að hafa hringinn og má setja brauðið bara beint á plötu.

Að lokum pennsla ég brauðið með góðri olíu og strái grófu salti yfir. Þannig verður skorpan stökk og fín og saltið gerir kraftaverk.

Þetta er svo bakað í ofni á 180-190 C°hita (blástur) í 40-50 mín.

Stingið hníf í mitt brauðið þegar það er að verða til, ef það kemur klíningur á hnífinn hafið það þá lengur inni og endurtakið með hnífinn þar til það kemur ekkert á hann.

Þetta brauð er það gott að það er vel hægt að bjóða upp á það í veislum eða boðum og einnig fer það vel með mat. Ég held að auðveldara brauð sé ekki hægt að gera…..líka fyrir ykkur sem kunnið ekki að elda eða baka, þetta er uppskrift fyrir ykkur.