Dómnefnd Médicis-bókmenntaverðlaunanna tilkynnti á blaðamannafundi í París í gær að Auður Ava Ólafsdóttir hlyti Médicis étranger fyrir skáldsögu sína Ungfrú Ísland sem kom út í franskri þýðingu Éric Boury í september. Skáldsagan kom út hjá Benedikt bókaútgáfu á síðasta ári.

Guðrún Vilmundardóttir útgáfustjóri Benedikts segir: „Þetta er sérlegur heiður og ánægja. Eftir því sem ég veit best eru þetta virðulegustu og virtustu verðlaun fyrir þýdda bók í Frakklandi. Vænst þykir manni um viðurkenninguna, en því er ekki að neita að næst hugsar maður um þau gífurlegu áhrif sem þetta á eftir að hafa á sölu. Auður Ava er nú þegar þekktur og dáður höfundur í Frakklandi. Þessi verðlaun munu stórauka veg hennar.“

Ungfrú Ísland hefur hlotið afburða dóma í Frakklandi, meðal annars heilsíðugrein í stórblaðinu Le Monde littéraire sem endar á orðunum: „Heimurinn þakkar fyrir þá tónlist, því hún er fögur.“ Segulmögnuð skáldsaga, óður til frelsis, sköpunar og þess að elska er meðal þess sem tíundað er í frönskum ritdómum.

Stofnað var til hinna virtu Médicis-bókmenntaverðlauna fyrir rúmum 60 árum. Meðal höfunda sem hlotið hafa Médicis étranger eru Milan Kundera, Julio Cortázar, Doris Lessing, Umberto Eco, Elsa Morante, Paul Auster og Philip Roth.

Auður Ava er nú stödd í París.