Einn af mörgum þáttum sem einkenna líf foreldra ungra barna nú á dögum er aukið áreiti frá snjalltækjum og samfélagsmiðlum, sem um leið getur haft áhrif á þann tíma sem foreldrar sinna nýfæddum börnum sínum. Það skiptir mjög miklu máli að heili nýfæddra barna sé örvaður frá upphafi, sérstaklega á fyrstu 1-2 árin í lífi þeirra, segir Sólrún Ósk Lárusdóttir, sálfræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Einn mikilvægasti þátturinn fyrir heilaþroska ungbarna er samskipti við umönnunaraðila, þá sérstaklega samskipti sem byggja á svokallaðri „sendingu og svörun“ (e. serve and return). Börn gefa frá sér ósjálfráðar sendingar með babbli, svipbrigðum og látbragði og fullorðnir svara með því að bregðast við með sams konar hætti.“

Þarf ekki flókin samskipti

Hún segir að slík samskipti þurfi ekki að vera flókin, ekki þurfi að spila Mozart eða lesa upp úr heimsbókmenntum fyrir barnið, heldur að tala við barnið um daginn og veginn. „Sumum finnst erfitt að vita hvað þau eiga að segja við svona lítið barn, en það er nóg til dæmis að tala upphátt um það sem þú ert að gera þá stundina, til dæmis: „Nú er pabbi að brjóta saman þvott.“ Gott er að láta eins og þið skiljið hvort annað fullkomlega, svara barninu þegar það hjalar og bendir, brosa til barnsins og benda á hluti á móti, til dæmis, og nefna hlutinn. Þannig myndast nýjar taugatengingar í heilanum og þessi samskipti eru grunnurinn að uppbyggingu heilans, sem allur annar þroski byggir á.“

Nýta vakandi stundir

Sólrúnu finnst þó mikilvægt að árétta að ekki sé verið að skamma eða smána nýbakaða foreldra á neinn hátt, því það getur verið mjög krefjandi að sinna ungu barni. „Stundum er barn á brjósti tímunum saman, er óvært og vill hvergi sofna nema í fangi og alveg eðlilegt að foreldrar leiti í einhverja afþreyingu á meðan. En þann tíma sem barnið er vakandi og tilbúið til samskipta er varhugavert að vera sífellt annars hugar. Ég held að við þekkjum það mörg hvað það er auðvelt að gleyma sér í símanum, en það getur haft áhrif á þann tíma sem við höfum til að sinna barninu. Ef barn missir aftur og aftur af þessum nauðsynlegu samskiptum og tengslum, getur það valdið óöryggi og vanlíðan og haft áhrif á þroska þess.“

Í ungbarnaverndinni er farið yfir mikilvægi þess að örva barn og sinna tilfinningalegum þörfum þess jafnt sem líkamlegum, segir Sólrún. „Ef foreldrar spyrja eða óska eftir ráðgjöf varðandi notkun snjalltækja og samfélagsmiðla, er gott að leita til heilbrigðisstarfsfólks í ungbarnavernd eins og með aðra ráðgjöf tengda umönnun nýbura.“

Sólrún segir mikilvægt að árétta að ekki sé verið að skamma eða smána nýbakaða foreldra á neinn hátt, því það getur verið mjög krefjandi að sinna ungu barni. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Breyttir tímar

Þótt snjallsíminn og samfélagsmiðlar séu tiltölulega nýleg fyrirbæri hafa alltaf verið til staðar alls kyns hlutir sem gátu tekið tíma frá umönnun barnsins, segir Sólrún. „Það gildir það sama ef við erum að lesa blaðið eða alltaf að þrífa eða jafnvel bara í vinnunni, eins og var ef til vill frekar raunin með eldri kynslóðir þegar fæðingarorlofi var öðruvísi háttað. Þá var líka kannski stuðningsnetið annað, fleiri voru heimavinnandi og um leið voru fleiri sem gátu sinnt barninu yfir daginn, á meðan ömmur og afar nútímans eru oftast í vinnu og að sinna fjölbreyttum áhugamálum.“

Síminn getur verið tímaþjófur

Hún segir suma foreldra verða mjög einangraða í fæðingarorlofi, sérstaklega á tímum heimsfaraldurs og eiga helst samskipti við aðra í gegnum síma og samfélagsmiðla. „En síminn er kannski meiri tímaþjófur en margt annað og það er þetta með að vera á staðnum en samt ekki. Áreiti samfélagsmiðla getur haft nánast ávanabindandi áhrif á heilann og mörg eiga mjög erfitt með að vera án símans í einhvern tíma. Rannsóknir benda til að mikil samfélagsmiðlanotkun geti haft neikvæð áhrif á til dæmis sjálfsmynd, svo það er hollt fyrir nýbakaða foreldra sem og aðra að huga að sjálfum sér og reyna að takmarka notkunina eitthvað.“

Fyrir utan það er sú athöfn að hanga í símanum ekkert sérstaklega mikil gæðastund, bætir hún við. „Það er álag að vera með lítið barn og það er gott að huga að ýmsum öðrum leiðum til að verja þeim tíma sem gefst í eitthvað uppbyggilegt.“

Hægt að sækja sér fróðleik

Ýmsar leiðir eru fyrir unga foreldra sem vilja leita sér upplýsinga um áhrif snjallsíma og samfélagsmiðla á foreldrahlutverkið, að sögn Sólrúnar. „Það eru ágætar upplýsingar um skjánotkun barna og foreldra á Heilsuveruvefnum heilsuvera.‌is. Einnig bendi ég sérstaklega á þrjú myndbönd þar um tengslamyndun og heilaþroska ungbarna, sem hafa verið þýdd frá Center on the Developing Child við Harvard-háskóla. Þau má finna á slóðinni www.heilsuvera.is/efnisflokkar/lidan/samskipti-og-tengsl/tengsl-foreldra-og-ungbarna.