Við fæðumst með augu sem eru um 16 millimetrar í þvermál. Um þriggja ára aldur munu þau hafa stækkað upp í um 23 millimetra í þvermál. Og við kynþroska munu augun hafa náð fullri stærð, eða um 24 millimetrum í þvermál. Efnið sem er að finna í augum okkar er eins konar glært gel sem kallast augnhlaup. Ljós ferðast frá augasteini og linsu til augnbotns sem er þakinn sérstökum, ljósnæmum frumum, keilum og stöfum, sem saman nefnast sjónhimna. Þaðan berast upplýsingar frá sjóntaug til heila, þar sem þær eru túlkaðar.

Hvað er þetta 20/20 sem fólk talar um þegar það ræðir um fullkomna sjón? Þessar tölur eiga við 20 fet og merkja í raun að sá sem er verið að prófa sjón hjá, geti séð sömu textalínu á sjónprófi í 20 feta fjarlægð og manneskja með fullkomna sjón getur séð í sömu fjarlægð. Þá er maður með fullkomna 20/20 sjón. En sá sem er með 20/40 sjón getur eingöngu séð textalínu á sjónprófi í 20 feta fjarlægð sem einhver með fullkomna sjón getur séð úr 40 feta fjarlægð. Viðmiðin um þá sem eru með fullkomna sjón eru þó ekki þau að um sé að ræða bestu sjónina. Margir ungir einstaklingar geta til dæmis séð minni textalínu á sjónprófi en manneskja sem er með 20/20 sjón. Á Íslandi er talað um 6/6 sjón sem á við sex metra, fremur en 20 fet.

Augun geta sagt margt um persónuna. Mynd/Getty Images.

Litur augnanna á uppruna sinn í því hversu mikið melanín litarefni er að finna í lithimnunni. Það er þó ekki eini tilgangur melaníns í augunum, því litarefnið er það sem hjálpar okkur að verja augun gegn sólargeislum. Ljós augu eru af þeim völdum mun viðkvæmari fyrir skaðlegum sólargeislum, því þau hafa einfaldlega minna magn af litarefni en dökk augu.

Litur augna þinna getur vel breyst, bæði í samræmi við tilfinningar og birtuskilyrði. Litarefnin í lithimnunni dragast saman og breiða úr sér, eftir því sem augasteinninn stækkar og minnkar. Þetta verður til þess að augun dökkna oft þegar augasteinninn stækkar, þar sem litarefnið í himnunni þéttist, og lýsast sömuleiðis þegar augasteinninn minnkar og litarefnið breiðir úr sér yfir stærra svæði.

Ákveðnar tilfinningar geta orðið til þess að augasteinninn stækkar eða minnkar og geta tilfinningar því haft áhrif á lit augna þinna. Því er harla ólíklegt að augun geti breytt algerlega um lit.

Víða má finna upplýsingar um það hvernig hægt er að þjálfa augun til þess að bæta sjónina og laga nærsýni. Þannig er þó í pottinn búið að við getum ekki lagað sjónina án hjálpar sérfræðinga og ekki er til nein einföld aðferð til þess að laga sjónvandamál. Með góðu og hollu mataræði má þó styðja við sjónina.

Rannsóknir á genamengi fólks með blá augu hafa sýnt fram á að allir bláeygðir eiga sameiginlegan forföður. Uppruni blárra augna er rakinn til genastökkbreytingar sem átti sér stað fyrir um 6.000-10.000 árum.