Augn­lokin frusu föst á banda­ríska stór­leikaranum Geor­ge Cloon­ey á Ís­landi í fyrra þegar hann var staddur hér við tökur á Net­flix myndinni sinni The Midnight Sky. Cloon­ey greinir frá þessu í skemmti­legu við­tali í sunnu­dags­þætti CBS um helgina.

Líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá var kappinn staddur hér á landi síðasta vetur vegna myndarinnar og hitti meðal annars Þór­dísi Kol­brúnu R. Gylfa­dóttur, iðnaðar­ráð­herra af handa­hófi. Bar Þór­dís honum vel söguna, sagði hann léttan og við­kunnan­legan.

Í við­talinu lýsir Cloon­ey því hvernig kvik­mynda­tökur hér á landi eru þær erfiðustu sem hann hefur fengist við frá upp­hafi. Ein senan var til að mynda tekin upp í snjó­stormi.

„Þetta var allra fyrsta vikan af tökum. Við vorum á Ís­landi og það voru -40 gráður og 70 til 80 mílna vind­hviður. Og ég var að gera hluti án skíða­gler­augna svo augn­lokin mín frusu föst eftir minna en mínútu,“ segir leikarinn knái.

Clooney ásamt meðleikkonu sinni, Caoilinn Springall, í snjóstormi á Íslandi.
Mynd/Netflix

„Þannig að ég gat bara staðið í tökum í á­kveðinn tíma og svo þurfti ég að fara inn, þar sem við þurftum að nota hár­blásara svo ég gæti opnað augn­lokin og farið út aftur,“ segir Cloon­ey.

Myndin byggir á skáld­­sögu eftir Lily Brooks-Dalton og gerist í heimi þar sem mann­­legt sam­­fé­lag hefur að mestu lagt í eyði. Fer Cloon­ey með hlut­verk vísinda­manns á norður­slóðum sem verður við­skila við dóttur sína. Hann segir mann­leg sam­bönd lykil­þráðinn í myndinni.

„Ég myndi segja að eitt af þemum myndarinnar sé hug­myndin um að hafa ein­hvern sem þér er annt um sem heldur þér gangandi,“ segir Clooney. Myndin kemur út á Netflix þann 23. desember næstkomandi.