Augnlokin frusu föst á bandaríska stórleikaranum George Clooney á Íslandi í fyrra þegar hann var staddur hér við tökur á Netflix myndinni sinni The Midnight Sky. Clooney greinir frá þessu í skemmtilegu viðtali í sunnudagsþætti CBS um helgina.
Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá var kappinn staddur hér á landi síðasta vetur vegna myndarinnar og hitti meðal annars Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, iðnaðarráðherra af handahófi. Bar Þórdís honum vel söguna, sagði hann léttan og viðkunnanlegan.
Í viðtalinu lýsir Clooney því hvernig kvikmyndatökur hér á landi eru þær erfiðustu sem hann hefur fengist við frá upphafi. Ein senan var til að mynda tekin upp í snjóstormi.
„Þetta var allra fyrsta vikan af tökum. Við vorum á Íslandi og það voru -40 gráður og 70 til 80 mílna vindhviður. Og ég var að gera hluti án skíðagleraugna svo augnlokin mín frusu föst eftir minna en mínútu,“ segir leikarinn knái.

„Þannig að ég gat bara staðið í tökum í ákveðinn tíma og svo þurfti ég að fara inn, þar sem við þurftum að nota hárblásara svo ég gæti opnað augnlokin og farið út aftur,“ segir Clooney.
Myndin byggir á skáldsögu eftir Lily Brooks-Dalton og gerist í heimi þar sem mannlegt samfélag hefur að mestu lagt í eyði. Fer Clooney með hlutverk vísindamanns á norðurslóðum sem verður viðskila við dóttur sína. Hann segir mannleg sambönd lykilþráðinn í myndinni.
„Ég myndi segja að eitt af þemum myndarinnar sé hugmyndin um að hafa einhvern sem þér er annt um sem heldur þér gangandi,“ segir Clooney. Myndin kemur út á Netflix þann 23. desember næstkomandi.