Atvinnumaðurinn Anton Rúnarsson var valinn íþróttamaður ársins hjá Val í fyrra. Anton er ákaflega stoltur af viðurkenningunni, segir hana mikinn heiður og vonar að hann geti verið fyrirmynd fyrir yngri iðkendur.

Anton er 32 ára gamall, þriggja barna faðir og er kvæntur Sigrúnu Gróu Skúladóttur. Hæfileikar hans á sviði boltaíþrótta komu fljótlega í ljós en Anton var ekki nema sjö ára gamall þegar hann gekk til liðs við Val.

„Ég ólst upp fyrstu sex árin á Akureyri en flutti til Reykjavíkur sjö ára gamall og byrjaði í 2. bekk í Hlíðaskóla. Ég var í bæði handbolta og fótbolta upp alla yngri flokka Vals og varð yngsti leikmaður í sögu Vals í fótboltanum til að skrifa undir samning við Val á sínum tíma.“

Margir boltar á lofti

Fótboltinn laut þó að lokum í lægra haldi fyrir handboltanum. „Á endanum hætti ég í fótbolta til að einbeita mér að handboltanum þar sem allir mínir bestu vinir voru á fullu. Handboltinn hefur alltaf verið sigursæll í öllum flokkum innan félagsins og unnum við ófáa titla saman í yngri flokkum sem hélt áfram þegar ég byrjaði að spila í meistaraflokknum.“

Anton hefur spilað sem atvinnumaður í fjögur ár, fyrst tvö ár í Danmörku og síðar tvö ár í Þýskalandi. Eftir árin í atvinnumennskunni sneri hann aftur heim og kláraði íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík ásamt því að klára öll þjálfarastigin hjá Handknattleikssambandinu.

Anton hefur ekki síður getið sér góðan orðstír sem þjálfari yngri flokkanna hjá Val undanfarin ár. Þegar hann er spurður að því hver sé lykillinn að því að vera góður þjálfari nefnir hann nokkra mikilvæga eiginleika.

„Að elska það sem þú ert að gera og tilbúinn að vera til staðar fyrir yngri iðkendur félagsins sem margir hverjir eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttum. Að vera heiðarlegur og sanngjarn skiptir miklu máli og að vera góð fyrirmynd fyrir aðra.“

Anton segir mikilvægt að þjálfarar yngri flokka séu heiðarlegir, sanngjarnir og góðar fyrirmyndir.

Stoltur og hrærður

Anton segir engin orð ná yfir þá tilfinningu að hafa hlotið viðurkenningu sem íþróttamaður Vals árið 2020.

„Tilfinning var ólýsanleg. Ég get eiginlega ekki lýst því hversu stoltur og hrærður ég er. Þegar ég var lítill strákur sá maður allar hetjurnar sem voru að vinna alla þessa titla í öllum greinum innan félagsins sem maður leit upp til og dáðist að. Það voru ófáir leikirnir sem maður var mættur á til að horfa á hetjurnar og hvetja þá áfram. Það er mikill heiður að vera ein af þeim í dag og vonandi getur maður verið hvatning fyrir yngri iðkendur félagsins,“ segir Anton.

„Valur er stærsta félag á Íslandi með marga frábæra íþróttamenn innan félagsins í öllum deildum sem hefðu einnig getað orðið fyrir valinu. Við áttum frábært tímabil í handboltanum þar sem liðið stóð sig frábærlega eftir erfiða byrjun en við enduðum sem deildarmeistarar þar sem margir leikmenn spiluðu vel og eiga stóran þátt í þessari viðurkenningu.“

Anton tiltekur nokkur augnablik sem standa upp úr á ferli hans sem Valsari. „Eftir að ég koma heim úr atvinnumennskunni árið 2016 þá urðum við Íslands- og Bikarmeistarar árið 2017 eftir svakalega úrslitakeppni við FH sem var algjörlega frábær árangur. Sama ár náðum við einnig langt í Evrópukeppninni og spiluðum í undanúrslitum á móti Turda frá Rúmeníu.

Að hljóta nafnbótina Íþróttamaður Vals árið 2020 er augnablik sem ég gleymi aldrei og mesti heiður sem íþróttamaður innan félagsins getur fengið. Ég er ótrúlega stoltur og þakklátur að hafa fengið þá viðurkenningu.“

Aftur út til Þýskalands

Anton skrifaði nýverið undir samning við TV Emsdetten á nýjan leik. Hann segir fyrirhugaða búferlaflutninga leggjast vel í sig og fjölskylduna, enda ekki í fyrsta skipti sem þau leggja land undir fót.

„Ég spilaði með TV Emsdetten í tvö ár áður en ég kom aftur heim í Val. Við þekkjum klúbbinn og bæinn mjög vel og okkur leið ótrúlega vel þarna. Það er spennandi að fara aftur utan í atvinnumennskuna og halda áfram að þróa mig og bæta sem leikmann. Elsta stelpan okkar var í leikskóla úti og strákurinn okkar fæddist þarna.

Tengingin við liðið og bæinn er því mjög sterk og erum við mjög spennt fyrir þessu ævintýri sem er fram undan. Það er auðvitað ekkert auðvelt að flytja út með þrjú börn og koma öllum fyrir í skóla, ásamt öðru tungumáli og mun eflaust taka smá tíma að aðlagast. En þetta verður ævintýri og gaman að leyfa þeim að kynnast öðru umhverfi.“