Hús athafnamannsins Hafsteins Häsler í Blikanesi er ekki til sölu, þrátt fyrir að það hafi verið auglýst til sölu. Hafsteinn segir um grín og misskilning að ræða sem hafi gengið of langt. Húsið var skráð á sölu hjá Domusnova fyrir tveimur vikum, þann 1. október.

Auglýsing um 340 milljón króna hús til sölu á Arnarnesi þar sem engin mynd birtist og heimilisfangið ekki gefið upp hefur víða vakið athygli. Fréttablaðið komst að því að um væri að ræða hús Hafsteins Häsler.

„Nei, það er ekki rétt,“ svara Hafsteinn aðpurður hvort hús hans sé á sölu. Þegar Hafsteini er bent á að þrátt fyrir það sé húsið auglýst til sölu segir hann það bara vera „eitthvað rugl,“ eins og hann orðar það.

„Ég er búinn að draga þetta til baka. Eða sem sagt, ég er búinn að heyra í þeim,“ segir Hafsteinn. Málið sé einn allsherjar misskilningur.

Þannig þið ætlið bara að sitja sem fastast heima í Blikanesinu?

„Absalút. Ekki fara neitt. Að sjálfsögðu ekki,“ svarar Hafsteinn og segir aðspurður að hverfið sé auðvitað eitt hið besta á Íslandi. „Nákvæmlega. Það fer enginn úr svona hverfi. Ekki sjéns.“

Hafsteinn segir að fasteignasalinn hjá Domusnova sé félagi sinn og að grínið greinilega gengið of langt.

„Þetta var bara eitthvað rugl sko. Þetta kom til af því að hann spurði hvort ég vildi selja. Ég sagði við hann að það væri allt til sölu. Svo bara var það ekki meira rætt. Þannig þetta var misskilningur,“ segir Hafsteinn. „Ég er búinn að skamma hann,“ bætir hann við.

Glæsileg eign

Á vef fasteignasölunnar Domusnova, þar sem húsið er enn auglýst, kemur fram að húsið er á einni hæð. Það er 293,6 fermetrar að stærð, byggt árið 1970.

Alls eru sjö herbergi í húsinu, fjögur svefnherbergi, þrjú baðherbergi auk sérinngangs og þvottahúss.

Þá segir fasteignasalan að búið sé að endurnýja húsið mikið á undanförnum árum að innan og utan með heitum potti og gufu.

Sagði fasteignasalinn Óskar Már Alfreðsson við Fréttablaðið að um væri að ræða glæsilegt hús. Þar fylgir gufa og heitur pottur „Já já, það er gufubaðshús. Þetta er alvöru hús,“ segir Óskar um húsið sem nú er komið á daginn að er ekki á sölu af hálfu eigandans.

Hann sagðist aðspurður hafa orðið var við mikinn áhuga á húsinu. „Við erum að sýna. Það er lítið til af fasteignum og þá er mikið að gera,“ segir Óskar.

Auglýsing fasteignasölunnar.
Fréttablaðið/Skjáskot