Ný aug­lýsing frá starf­sendur­hæfinga­sjóðinum VIRK um kyn­ferðis­lega á­reitni á vinnu­stöðum hefur vakið mikla at­hygli víða á sam­fé­lags­miðlum. Í aug­lýsingunni syngur kór frasann „Það má ekkert lengur.“

Aug­lýsinga­stofan Hvíta húsið vann aug­lýsinguna og út­færslu hennar.

Á heima­síðu Virk segir: „Við þekkjum öll setninguna „Það má ekkert lengur“ og vitum fyrir hvað hún stendur. Til­gangur þessarar vitundar­vakningar er að varpa ljósi á þá skekkju sem felst í slíkum hugsunar­hætti og af­vopna þau sem nota hann til þess að af­saka og við­halda rót­gróinni mis­beitingu valds á vinnu­stöðum.“

Í aug­lýsingunni syngja ein­staka aðilar síðan dæmi­sögur. „Sam­starfs­konum mínum spilli með nuddi og frægri fingra­snilli. Þær hafa alltaf alveg elskað það en núna er ég allt í einu dóni og ruddi,“ syngur einn.

„Í glasi ég stundum þess freista að fal­lega líkams­parta kreista. Áður fyrr enginn þeirra kvartaði, en nú er eins og ég sé orðinn skað­ræði,“ er einnig sungið.

Í lok aug­lýsingarinnar eru einnig teknir fyrir frasar eins og „ég var bara að grínast,“ „því­lík móður­sýki alltaf hreint“ og „maður er bara skít­hræddur hérna.“

„Stundum gerir mar skemmti­legt í vinnunni, þótt mál­efnið sé al­var­legt,“ segir Guðni Hall­dórs­son í færslu á Twitter, en hann klippti aug­lýsinguna. Færsla Guðna hefur fengið tæp­lega 700 „læk“ þegar fréttin er skrifuð.

Sjá má aug­lýsinguna hér að neðan.