Hljómsveitin GÓSS heldur viðhafnartónleika í Vinabæ í Skipholti, laugardaginn 19. október næstkomandi. Á tónleikunum verða leikin lög af nýútkominni plötu sveitarinnar Góssentíð sem vakið hefur athygli fyrir séríslenskar áherslur. Því þótti hljómsveitarmeðlimum við hæfi að tónleikarnir væru á sömu nótum og eru því brauðtertur, kökur og kaffi innifalið í miðaverði.

Auglýsa í brauðtertuhóp á Facebook

Þar sem hljómsveitarmeðlimir eru miklir brauðtertuaðdáendur og langaði að bjóða upp á slíkt góss í hléi tónleikana brugðu þau á það ráð að auglýsa eftir þeim í hópnum Brauðtertufélag Erlu og Erlu á Facebook. Þar bjóða þeir brauðtertulistamönnum að útbúa brauðtertur gegn miðum á tónleikana. Áhugasamir brauðtertu- og tónlistarunnendur geta því lagt sitt lóð á vogarskálarnar og grætt tónleikamiða með því að hafa samband við sveitina í gegnum Facebook síðu hennar https://www.facebook.com/hljomsveitingoss/

Sveitin hafði lengi leitað að rétta tónleikastaðnum til að fagna nýrri plötu og varð Vinabær fyrir valinu. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Vinabær reyndist hinn eini rétti salur

Tónleikarnir eru einhvers konar síðbúnir útgáfutónleikar fyrir plötuna Góssentíð sem kom út snemmsumars. Sveitin hefur nefnilega ekki haldið tónleika í Reykjavík frá útkomu plötunnar því meðlimir vildu finna rétta salinn fyrir tilefnið. Það var svo auðvitað borðleggjandi að hinn stórkostlegi og sögufrægi salur Vinabæjar, sem er helst þekktur fyrir bingókvöld sín, væri rétti staðurinn – og brauðtertur rétta meðlætið!