María Gomez heldur úti matarblogginu Paz.is sem ætlað er nautnaseggjum sem hafa gaman af því að baka og elda góðan mat án mikillar fyrirhafnar, en flestar uppskriftirnar eru í einfaldari kantinum. María er mikill sælkeri og segist alltaf hafa haft gaman af því að reyna fyrir sér í eldhúsinu og fáum við að birta úrval uppskrifta úr fórum hennar.

María birtir reglulega girnilegar og einfaldar uppskriftir á vefsíðu sinni paz.is.

Auðveldasta lasagne í heimi

1 græn papríka

1 laukur

4 hvítlauksgeirar eða 1 geiralaus hvítlaukur

1 dós af niðursoðnum tómötum (chopped tomatoes)

1 lítil dós tómatpúrra

1 msk agavesíróp eða önnur sæta (hunang, hlynsíróp, sykur eða hvaða sæta sem þið kjósið)

1 tsk af þurrkuðum kryddjurtum eins og basil, oregano, timian og annað sem þið kjósið, allt frjálst, jafnvel allt saman.

1 tsk af hvítlauksduft (ekki hvítlaukssalt)

1 tsk af laukduft

1 tsk papríkuduft

1 nautakjötsteningur

Múskat (val en gefur fáranlega gott bragð)

500 g nautahakk

stór dós kotasæla

1 poki rifinn ostur (Mozzarella er bestur)

Lasagnaplötur að eigin vali úr kassa.

1 dós sýrður rjómi með graslauk (þessi í græna boxinu)

Ferskur Parmesan er algjört lykilatriði til að strá yfir lasagneið ásamt fersku salati og hvítlauksbrauði.

Byrjið á að steikja hakkið á pönnu og saltið og piprið. Ef þið viljið getið þið líka kryddað það með örlítið af oregano, timian og papríkudufti. Meðan hakkið er á pönnunni byrjið þá á sósunni.

Afhýðið lauk og fræhreinsið papríkuna og skerið bæði lauk og papríku í tvennt.

Setjið næst allt eftirfarandi í blandara: Lauk, papríku, hvítlauk, dósatómata, púrru, 1 tsk af öllu þessu, oregano, timian, paprikudufti, laukdufti og hvítlauksdufti. 1 Nautasoðstening og 1 msk agave/sætu.

Setjið klípu af salti og pipar og maukið í drasl.

Hellið svo sósunni úr blandaranum, út á hakkið, og leyfið því að malla saman í 10 mínútur á pönnunni.

Næst er svo byrjað að raða upp í eldfasta mótið.

Setjið hakksósu neðst í botninn, í þunnu lagi, og svo þurrar lasagnaplötur ofan á hakkið.

Smyrjið svo þunnu kotasælu lagi ofan á plöturnar og stráið smá múskati yfir.

Setjið svo aftur hakksósu ofan á kotasæluna, plötur ofan á og svo kotasælu, múskat og hakk að lokum þar ofan á

Mér finnst gott að hafa tvö lög af plötum.

Setjið svo sýrða rjómann yfir hakkið, mér finnst best að hræra hann aðeins upp í dósinni og smyrja hann yfir allt hakkið í þunnu lagi. Það er allt í lagi þó hann blandist inn í hakkið.

Að lokum er svo rifna ostinum stráð yfir og gott er að setja smá papríkuduft yfir ostinn.

Eldið á 200 gráðu undirhita eða blæstri í 35 mínútur.

(Ef þið notið undirhitann eru minni líkur á að osturinn brenni.)

Allt hráefnið í uppskriftina er unnið frá grunni en þó er fyrirhöfnin lítil.