Hildur Yeoman opnaði nýja verslun á Laugavegi 7 í gær. Verslunin hafði verið til húsa á Skólavörðustíg síðastliðin fjögur ár.

Hildur hafði lengi leitað að stærra húsnæði og segir að tækifærið hafi loks komið núna þegar mikið af spennandi húsnæði er að losna í miðbænum.

Búðin er glæsileg og stútfull af nýjum vörum.
Fréttablaðið/aðsend

Í tilefni af nýju versluninni verður skemmtileg dagskrá um helgina, en sóttvarnir verða í hávegum hafðar.

Klukkan fimm í kvöld ætlar tónlistarmaðurinn Auður að halda tónleika í búðarglugga verslunarinnar og DJ Dóra Júlía ætlar að þeyta skífum á morgun.

„Það er frábært að vera komin í stærra og betra húsnæði þar sem nóg pláss er fyrir alla, þó að það megi að sjálfsögðu bara tíu vera inni í versluninni á sama tíma. Við erum með fullt af nýju dóti, bæði var að koma ný lína frá okkur en við vorum einnig að taka inn ný merki í búðina. Það verður mikið fjör hér um helgina, gaman að fagna og hafa stuð á Laugaveginum núna þegar það er verið að opna nýjar verslanir," segir Hildur.

Verslunin verður opin til klukkan sjö í kvöld og alla helgina.

Líklegt er að Auður hafi fundið jólafötin í Yeoman.
Fréttablaðið/Valli