Auðunn Lúthersson, betur þekktur undir sviðsnafninu Auður, segist hafa verið að vinna í nýrri tónlist með fjölbreyttum hópi listamanna undanfarnar vikur. Hann birtir mynd af sér og handskrifuðum texta á Instagram í dag þar sem hann greinir frá.

„Undanfarnar vikur hef ég verið að vinna nýrri tónlist með fjölbreyttri flóru músíkanta," skrifar Auðunn. „Þetta er það skemmtilegasta og fallegasta sem ég fæ að gera."

Auðunn segist einnig hafa sungið á nokkrum útvöldum giggum og segist hlakka til þess að taka á móti fleiri bókunum. „Lífið er svo stutt," skrifar hann.

Auður dró sig úr sviðljósinu í fyrra og hefur lítið komið fram opinberlega síðan.

Í apríl síðastliðnum viðurkenndi í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að hann hafi brotið á konum sem og farið yfir mörk þeirra og verið ógnandi. Hann vísaði þó orðrómnum um þöggunarsamninga og brot gegn stúlku undir lögaldri alfarið á bug.