Tónlistarmaðurinn Auðunn Lúthersson, betur þekktur sem Auður, lítur yfir farinn veg og rifjar upp árið sem senn er á enda í story á Instagram.
Hann segist þakklátur fyrir góðar stundir og fallegt fólk: „Þakklátur að geta skapað músík með fólkinu sem fyllir mig innblæstri og hverjum einum einasta sem er að hlusta.
Þakklátur fyrir þetta hverfula augnablik sem tilveran er og alla sem eru mér samferða,“ skrifar Auðunn.
Hann rifjar upp það sem hann hefur afrekað í tónlist ár árinu og nefnir þar lögin í uppsetningu leikritsins, Rómeó og Júlía, sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu síðastliðinn vetur. En hann hlaut sína fyrstu Grímu tilefninu fyrir það.
Þá gaf Auður út tvö lög í samstarfi við tónlistarmennina Bubba og Jón Jónsson. Lagið Tárin falla hægt kom út í lok september og hefur notið mikilla vinsælda.
Lagið var til að mynda í sex vikur í efsta sæti á top 50 af mest spiluðu lögum á Íslandi á streymisveitunni Spotify á árinu.



Dró sig úr sviðsljósinu
Lítið hefur farið fyrir tónlistarmanninum síðastiðið ár eftir að hann viðurkenndi að hafa brotið á konum, farið yfir mörk þeirra og verið ógnandi í fyrra.
Í apríl á þessu ári talaði hann um málið í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 þar sem hann viðurkennir brot sín en vísaði þó orðrómnum um þöggunarsamninga og brot gegn stúlku undir lögaldri alfarið á bug, og sagði það uppspuna frá rótum.
„Það er í grunninn munur á því að trúa þolendum og trúa orðrómum. Ég get ekki tekið við því sem er algjörlega ósatt. Ég vil miklu frekar, bæði hér og í lífi mínu, axla ábyrgð á þeirri hegðun sem ég ber ábyrgð á. Særandi og óþægileg, ég hef verið að fara yfir mörk, og ég hef verið meiðandi í minni hegðun. Ég hef ekki gert mér almennilega grein fyrir henni en ég samt ber algjörlega ábyrgð á henni,“ sagði hann.