Til­kynnt var í kvöld að Auður Ava Ólafs­dóttir er til­nefnd til hinna virtu frönsku bók­mennta­verð­launa Lé Prix Médicis Étranger, í flokki er­lendra rit­höfunda en einungis þrettán rit­höfundar eru til­nefndir í flokknum og ljóst að um gífur­legan heiður er að ræða.

Auður er nú á leið til Frakk­lands þar sem hún kynnir bók sína en Guð­rún Vil­mundar­dóttir, út­gefandi bókarinnar, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að til­nefningin sé ein­stakur heiður. Bókinni var lýst sem frá­bærri skáld­sögu, fullri af dýpt og ríkum mann­skilningi af gagn­rýnanda Frétta­blaðsins.

„Ég var bara að fá þessar fréttir í kvöld. Að þeir væru að kynna þetta og hef ekki heyrt í Auði enn­þá. En ég veit þar sem ég bjó einu sinni í Frakk­landi og er á­huga­manneskja um franskar bók­menntir, að Médici verð­launin með Goncourt verð­launum eru flottustu verð­launin þar í landi,“ segir Guð­rún.

Hún segir að listinn sem til­kynntur var í kvöld sé fyrsti listinn sem verði til­kynntur. Svo mun rit­höfundum fækka og eftir stendur einn verð­launa­hafi í haust. Það sé glæsi­legt sem þýddur höfundur að lenda á þessum lista.

„Maður er bara enn hálf orð­laus. Hún var í rauninni bara að koma út í Frakk­landi fyrir nokkrum dögum, svo þetta eru al­gjör stór­tíðindi,“ segir Guð­rún. Auður sé að fara í ferða­lag til fimm borga í Frakk­landi nú til að kynna bókina.

„Núna er hún á upp­lestrar­ferða­lagi til að hitta les­endur og ég býst við því að franski út­gefandinn sé í skýjunum með þessar fréttir,“ segir Guð­rún létt í bragði að lokum.