Nýtt þjóðhátíðarlag Auðuns Blöndal og félaga í útvarpsþættinum FM95BLÖ, Komið að því, datt inn á Spotify á miðnætti og segja má að kjarni málsins sé fólginn í titlinum þar sem það er komið að því að þeir skemmti aftur í Herjólfsdal eftir hlé og messufall í fyrra.

„Já, það er komið að því,“ segir Auðunn Blöndal með þungri áherslu á síðasta orðið um þjóðhátíðarlagið Komið að því, sem hann, Steindi Jr. og Egill Einarsson flytja undir kunnuglegum merkjum útvarpsþáttarins FM95BLÖ.

„Ég er eiginlega alveg pottþéttur á því að þetta sé besta þjóðhátíðarlagið okkar hingað til og það fór fram úr okkar björtustu væntingum,“ bætir Auddi við um lagið sem varð aðgengilegt á Spotify á miðnætti.

Komið að því má teljast til marks um að þremenningarnir séu komnir aftur í gamla þjóðhátíðarformið og tilbúnir til þess að taka upp þráðinn eftir tveggja ára hlé. „Það var náttúrlega ekkert í gangi í fyrra þannig að texti lagsins kemur svolítið inn á að það er búið að vera tveggja ára frí hjá okkur og að það er loksins komið að Þjóðhátíð.“

Komið að sumarfríi

FM95BLÖ hefur verið á dagskrá FM957 um langt árabil auk þess að hafa verið reglulegur gestur á Þjóðhátíð en Audda telst til að þjóðhátíðarlög þeirra félaganna séu orðin þrjú eða fjögur.

Steindi og Auddi sömdu texta nýja lagsins ásamt Ásgeiri Orra Ásgeirssyni úr StopWaitGo sem hefur áður verið útvarpsgenginu innan handar við lagasmíðar. Til dæmis í laginu Ég fer á Þjóðhátíð frá 2015.

„Lagið kemur út núna og þátturinn er að fara í sumarfrí. Hann fer alltaf í sumarfrí í júlí og fyrsti þáttur eftir sumarfrí er alltaf á Þjóðhátíð. Það hefur verið þannig hjá okkur síðustu sjö ár.

Við skemmtum alltaf á stóra sviðinu á laugardagskvöldinu og stefnan er náttúrlega að gera allt vitlaust,“ segir Auddi um laugardagskvöld komandi verslunarmannahelgar.

Glöggur Sherlock

„Við erum náttúrlega þrír sem erum með þáttinn og svo fengum við Jóhönnu Guðrúnu og Sverri Bergmann til að syngja með okkur í laginu,“ segir Auddi um gestasöngvarana sem eru kynntir til leiks með tengingunni „feat“ eða „featuring“ eins og tíðkast í tónlistarheiminum þegar sérstakur liðsauki er kallaður til.

„Það var einhvern tímann einhver snillingur sem setti á Twitter að FM95BLÖ fengi alltaf Sverri Bergmann með sér í lögin svo þau yrðu flott. Það er nú bara „no shit, Sherlock“ og nákvæmlega pælingin. Það verður að vera einhver þarna sem kann að syngja.“

Lagið er feat. Sverrir Bergmann og Jóhanna Guðrún sem hafa það framyfir FM95BLÖ að þau kunna að syngja.Mynd/Aðsend

Besta blandan

Áformin um að gera allt vitlaust í Herjólfsdal 2021 hljóta að fela í sér að FM95BLÖ þurfi að setja markið heldur hátt þar sem, eins og frægt varð á sínum tíma, jarðskjálftamælar Veðurstofunnar í Heimaey tóku kipp þegar hópurinn steig á svið sumarið 2016.

„Ég held líka að það hjálpi okkur rosalega á sviðinu að við vorum allir og höfum alltaf allir dýrkað Þjóðhátíð og farið reglulega. Þannig að við vitum eiginlega nákvæmlega hvernig stemning á að vera.

Það smitar út frá sér að okkur finnst þetta jafn gaman og liðinu sem er að hoppa fyrir neðan og þannig verður til einhver svona rafmögnuð stemning. Við erum að skemmta okkur og skemmta og það er besta blandan held ég.“

Stoltur þjóðhátíðarplebbi

Auðunn hefur sótt Þjóðhátíð frekar stíft í gegnum tíðina. „Já, já. Ekki spurning. Ég hef alltaf verið þjóðhátíðarplebbi. Skammast mín ekkert fyrir það.“ Þetta hafi ekki einu sinni breyst við það að hann er orðinn ráðsettur fjölskyldufaðir tveggja lítilla barna.

„Ekki fyrst ég get kallað þetta vinnu. Það hjálpar aðeins. En það er mjög fyndið að síðast þegar ég skemmti á Þjóðhátíð átti ég ekkert barn en núna er ég að skemmta með tvö. Það er smá munur.“