Þau Unnsteinn Manuel Stefánsson, Jófríður Ákadóttir og Logi Pedro Stefánsson ætla að bjóða upp á námskeið í tónsmíðum fyrir stúlkur á aldrinum 16-20 ára í sumar. Námskeiðið heitir því skemmtilega nafni Snælda og fer fram dagana 22 til -27. júní í Reykjavík. Níu stúlkur komast að og er námskeiðið þátttakendum að kostnaðarlausu.

„Snælda er námskeið fyrir ungar tónlistarkonur. Við erum að kenna á vinsælt tónsmíðaforrit sem heitir Ableton Live og förum yfir undirstöðuatriði í tónsmíðum og útsetningum á tölvur. En við kennum líka það helsta í að koma fram og að koma sér á framfæri,“ segir Unnsteinn.

„Við opnuðum hljóðverið okkar 101derland fyrir nokkrum árum og þegar við fluttum í stærra húsnæði árið 2016 þá varð stúdíóið að eins konar félagsmiðstöð fyrir unga tónlistarmenn eins og Flóna, Auð 101 Boys og marga fleiri. Það hafa ansi mörg lög verið tekin upp í stúdíóinu. En það gekk ekki svo vel að fá stelpur til að koma í stúdíóið til að taka þátt í starfseminni, þær komu í mesta lagi inn til að syngja inn á lög. Þær sem voru að syngja eigin tónlist þurftu alltaf að stóla á að hafa stráka með sem upptökustjóra,“ bætir Unnsteinn við.

Stelpur í stól upptökustjórans

Hann segir að þá hafi komið upp sú hugmynd að reyna að snúa þessu við, fá stelpurnar til að setjast í stól upptökustjórans og bjóða upp á kennslu í helstu forritum svo þær þyrftu ekki að reiða sig á neinn utanaðkomandi.

„Lykilatriði í þessu öllu var svo að fá hana Jófríði til liðs við okkur. Hún hefur verið þvílíkur drifkraftur og fyrirmynd fyrir stelpurnar á námskeiðunum auk þess sem hún deilir með okkur bræðrum þessari óbilandi trú á þetta forrit, Ableton Live,“ segir Unnsteinn.

Það hafa ýmis svipuð námskeið verið í boði fyrir stelpur en þau segja að vissu leyti vanti rétta umhverfið fyrir þennan stúdíó- og lagasmíðaheim.

„Það er til dæmis ótrúlega lítill hluti af STEF-gjöldum sem rennur til kvenna. Það var í kringum 10 prósent fyrir nokkrum árum, ég þekki ekki nýjustu tölur. Svo hafa líka verið námskeið eins og Stelpur rokka sem eru aðeins annars eðlis, en vinna að sama markmiði,“ segir Unnsteinn.

Námskeiðið sem þau halda í sumar er það fjórða í röðinni.

„Ég er alltaf svo ánægður þegar að ég hitti krakka sem hafa verið á námskeiðunum hjá okkur. Margir hafa verið að semja stöðugt síðan,“ segir Unnsteinn.

Jófríður Ákadóttir tónlistarkona stendur fyrir námskeiðinu ásamt Loga og Unnsteini.

Gróskan þarf að halda áfram

Af hverju finnst ykkur svona mikilvægt að halda námskeið sem þessi og hjálpa ungum stelpum að fóta sig í tónlistinni?

„Ég nefndi hérna áður STEF-gjöldin, en enn stærri og mikilvægari ástæða er að það er mikilvægt listarinnar vegna. Það er svo mikil gróska í íslensku tónlistarlífi og hefur verið í áratugi, það er lykilatriði að skapa pláss fyrir ungar stelpur svo að þessi gróska geti haldið áfram. Svona hlutir gerast ekki af sjálfu sér og hugsaðu þér alla tónlistina sem að við missum af ef stelpum er ekki hleypt að tökkunum,“ svarar Unnsteinn.

Unnsteinn, Logi og Jófríður vonast fyrst og fremst eftir því að þátttakendur muni einfaldlega finna gleði í því að skapa.

„Ef sköpunin leiðir til listaverka eða útgáfu þá er það bara plús. Svo þurfum við líka að minnast á að það kostar ekkert að taka þátt. Við höfum hlotið ýmsa styrki til þess að gera námskeiðið að veruleika,“ segir Unnsteinn.

Unnsteinn segist hafa það ágætt miðað við þá flóknu tíma sem heimsbyggðin er nú að upplifa.

„Við verðum líka að muna að þótt við séum alltaf að tala um að við séum öll á sama báti, þá eru aðstæður allra mjög ólíkar. Það má ekki gleymast. En ég vona að það leysist úr læðingi heilmikill sköpunarkraftur hjá sem flestum. Nú er tíminn til að læra á hljóðfæri og alls konar forrit. Ég er til dæmis búinn að vera að læra á bongótrommur eins og nágrannar mínir hafa eflaust tekið eftir,“ segir Unnsteinn.

Síðasti dagur til að senda inn umsókn um þátttöku í námskeiðinu er 14. apríl. Hægt er að sækja um á 101derland.com.