Meira en áttatíu þúsund Kanadabúar hafa ritað nafn sitt við undirskriftarlista þar sem þess er farið á leit við kanadísk stjórnvöld að hafna hertogahjónunum Harry og Meghan um að greiða fyrir öryggi þeirra. Þess er krafist að hertogahjónin borgi alla sína öryggisgæslu sjálf, að því er breska götublaðið Sun greinir frá.
Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá eiga sér nú stað samningaviðræður á milli forsvarsmanna hertogahjónanna og kanadískra yfirvalda um framtíðartilhögun á öryggisgæslu hjónanna. Nú þegar þurfa sex lögreglumenn að vakta hjónin og son þeirra öllum stundum.
Í frétt The Sun er tekið fram að samtök kanadískra skattgreiðenda hafi hins vegar miklar áhyggjur af komu hjónanna. Þannig hefur það verið opinberað að öryggisgæsla í kringum hjónin muni kosta að minnsta kosti sex milljón punda á ári, eða því sem nemur rúmlega 980 milljónum íslenskra króna.
Þá mun kosta að minnsta kosti 300 þúsund pund að flytja allt þeirra hafurtask til Kanada frá Bretlandi, eða léttar 49 milljónir íslenskra króna. Samtökin hafa af þessar miklar áhyggjur og þingmaður Vancouver ríkis í Kanada, Laurel Collins tekur undir.
„Ég vona að þau ætli sér að greiða sjálf fyrir öryggisgæsluna. Þegar það kemur að pening ríkisins okkar og pening skattgreiðenda er mikilvægt að við setjum þetta í samhengi og hugsum um okkar forgangsmál,“ segir hún.
„Að við setjum það í forgang að gera lífið þægilegra fyrir fólk og að við eyðum skattpeningnum okkar í hluti sem raunverulega skipta máli fyrir Kanadabúa. Áður hafa kannanir leitt í ljós að 73 prósent Kanadabúa vilji ekki greiða krónu til handa hertogahjónunum.