Það getur verið erfitt að fá góða hugmynd þegar skrifa á skapandi texta. Ein leið til að nálgast hugmyndavinnu er nýta sér kveikju til að koma sjálfum sér af stað.
Skapandi skrif þurfa alls ekki að vera eitthvað sem bara grafalvarleg verðlaunaskáld taka sér fyrir hendur. Það þarf ekki að vera þannig að í hvert skipti sem við snertum lyklaborðið eða setjum penna við hvítt blað þurfi útkoman að vera ódauðleg. Góð leið til þess að halda sér í æfingu getur verið að nýta sér kveikju en það er stuttur texti sem setur fram hugmynd sem hægt er að þróa og útfæra.
Fréttablaðið birtir hér átta kveikjur sem áhugasamir geta notað til þess að kynnast æfingum sem þessum. Þessar kveikjur eru allar birtar sem fyrstu persónu frásagnir en að sjálfsögðu er öllum frjálst að skipta um sjónarhorn og breyta einstaka þáttum í kveikjunni. Til þess að leikurinn gerður.
Erum sjálf okkar hörðustu dómarar
Sunna Dís Másdóttir, rithöfundur og leiðbeinandi í skapandi skrifum, segir að kveikjur séu góð leið til þess að halda sér í formi sem rithöfundur og notar þær óspart í námskeiðum sínum.
„Það er hægt að keyra heilu námskeiðin út frá þessu þegar fólk fær til dæmis sendar kveikjur, svo gerist eitthvað þegar neistinn kviknar,“ segir Sunna Dís en hennar ráð til þeirra sem hafa áhuga á að byrja að skrifa er að dæma sig ekki of hart. „Langmikilvægast er að bremsa sjálfan sig ekki af og senda dómharða ritstjórann af öxlinni í frí,“ segir hún og bætir við „Við erum alltaf okkar eigin hörðustu dómarar og bara mjög ósanngjarnir oft.“

Sunna telur þannig einnig góða æfingu að deila með öðrum því sem maður hefur skrifað.
„Það er ótrúlega hollt. Það er rosalega gott að viðra textann sinn aðeins og getur líka verið æfing í því að standa með honum. Ég hef til dæmis verið að keyra námskeið þar sem fólk fær sendar kveikjur frá mér á hverjum degi og svo erum við með hópa þar sem fólk birtir efni sitt eða ekki,“ segir Sunna en auðvitað sé valfrjálst hvort fólk sýni það sem það hefur skrifað.
„Það er mjög misjafnt hvort fólk vill þetta eða ekki. En ég held að þegar maður er kominn þangað og treystir sér til þá er rosa gott að rífa þann plástur af,“ segir hún en kveikjur geti einnig komið í margvíslegum formum.
„Þessar tegundir af kveikjum eru líka bara eitt form þeirra. Þegar maður er skrifandi eða langar að vera að skrifa þá er maður alltaf að leita að kveikjum alveg sama í hvaða formi þær eru,“ segir Sunna Dís en hún telur það öruggt að allir geti skrifað. „Já algjörlega. Að skrifa er bara að segja sögu eða segja frá og við erum alltaf að segja frá. Líf okkar er frásögn og saga og við getum öll skrifað. Það er bara þannig.“
Sunna Dís kemur til með að vera með námskeið næst í janúar og verður hægt að skrá sig á þau í gegnum Facebook-síðu hennar sem ber sama nafn og hún.
Átta kveikjur:
Draugasagan
Þú neyðist til að fara í einangrun vegna faraldursins. Þú færð íbúð að láni frá vinafólki. Þú ert sá eini sem er með lykla. Þegar þú situr á klósettinu í fyrsta skipti er bankað á hurðina.
Ástarsagan
Þú ferð í gegnum gamla muni á háaloftinu. Þú finnur fyrir tilviljun gamlan jakka sem þú klæddist síðast á menntaskólaballi. Í hliðarvasanum er bréf. Þetta bréf er ástarjátning frá honum/henni. Þeim sem þú þráðir á þeim árum.
Vísindaskáldsagan
Evrópusambandið vinnur kapphlaupið til Mars árið 2087. Þegar fyrsta fólkið kemur á yfirborðið finna þau Kínverskan fána sem skilinn hefur verið eftir. Hvers vegna sögðu Kínverjarnir ekki frá ?
Dramatíska sagan
Þú ert í brúðkaupsferðinni þinni með maka þínum. Stuttu eftir að þið hafið lagt af stað áttar þú þig á því að þú elskar manneskjuna ekki lengur.
Grínsagan
Þú deyrð og endar í helvíti. Djöfullinn verður brjálaður þegar þú gengur inn um hurðina því ert kornið sem fyllti mælinn. Hann er hættur. Hann setur veldissprotann í þínar hendur og flýgur aftur til himinríkis. Hvað gerir þú?
Ráðgátan
Þú ert leigubílstjóri í stórborg. Þú tekur upp enn einn farþegan en þegar þér verður litið í baksýnisspegilinn bregður þér í brún. Aðilinn lýtur út alveg eins og þú.
Barnasagan
Í tré sem stendur svo hátt að það nær upp í skýin búa bleikir apar með vængi. Þeir búa þó í stöðugum ótta því risi gengur laus í trénu sem neitar að sofa á nóttunni. Hvernig svæfir þú risann?
Fantasían
Galdrar hurfu af jörðinni fyrir þúsundum ára. En þeir fóru ekki langt heldur bundu fornir galdramenn þá djúp í iðrum jarðar. Ef við höldum áfram að grafa dýpra eftir jarðeldsneyti munu þeir sleppa aftur og galdrastríð brjótast út. Þú einn/ein veist af þessu vandamáli.