Það eru til ýmsar æfingar sem styrkja líkamann og auka þol en valda á sama tíma litlu álagi á liðina. Hér eru nokkrar æfingar sem þjálfarar í Bandaríkjunum hafa mælt með.

1. Sund

Fáar æfingar valda jafn litlu álagi á liðina og sund. Að fljóta í vatni dregur úr álagi á liði og liðbönd og vatnið skapar mótstöðu. Vatn kælir líka líkamann við hreyfingu og útilokar því hættuna á ofhitnun.

2. Hjólreiðar

Þegar hjólreiðar eru stundaðar er hægt að stjórna ákefðinni vel. Þær reyna lítið á liðina en eru mjög góðar fyrir hjarta- og æðakerfið. Þær hjálpa til við að byggja upp vöðva, sérstaklega í rassi, lærum og kálfum og styrkja þannig stoðkerfið.

3. Róður

Róður er ein elsta ólympíska keppnisgreinin. Róður er ein af fáum æfingum sem valda litlu álagi á liðina en reynir þrátt fyrir það á alla helstu vöðvahópana. Róður er mjög góður til að styrkja magavöðvana og neðri bakvöðvana. Róður brennir einnig fleiri kaloríum en bæði hjólreiðar og hlaup.

Hjólreiðar eru góðar fyrir hjarta- og æðakerfið og byggja upp vöðva.

4. Gönguferðir

Gönguferðir eru frábær leið til að æfa hjarta- og æðakerfið. Að ganga á ójöfnu undirlagi, sérstaklega ef það er smá hækkun á leiðinni, er mjög góð æfing fyrir kvið- og bakvöðvana auk þess sem það bætir jafnvægið.

5. Vatnsleikfimi

Líkt og sund er vatnsleikfimi mjög góð æfing fyrir fólk sem þjáist af stoðkerfisvanda. Þéttni vatnsins skapar mótstöðu þegar æft er í því og þar af leiðandi er auðvelt að gera styrktaræfingar í vatni. Einnig auðveldar þyngdarleysið í vatninu allar hreyfingar og dregur úr álagi á liði.

  1. Skautar

Að renna sér á skautum er frábær æfing, hvort sem það er á ís eða á hjólaskautum eða línuskautum. Þegar skautað er hreyfast fótleggirnir á allt annan hátt en þegar við göngum, hjólum eða hlaupum. Að skauta er góð þjálfun fyrir rassvöðvana, mjaðmirnar og innri lærin.

7. Jóga

Jóga er góð æfing sem getur aukið hjartsláttinn án þess að valda miklu álagi á liðina. Það fer þó eftir því hvaða tegund af jóga er stunduð. Vinyasa jóga er áhrifarík og góð æfingaleið sem tekur á um leið og hún er góð fyrir stoðkerfið.

8. Ketilbjöllur

Æfingar með ketilbjöllum geta skilað mjög góðum árangri og styrkt líkamann án þess að hafa neikvæð áhrif á stoðkerfið. Ketilbjölluæfingar eru framkvæmdar á gólfi og valda því minna álagi á hnén en til dæmis pallaleikfimi. Einnig gera handföngin á ketilbjöllunum það að verkum að auðveldara er að halda á þeim en venjulegum lóðum.