Kate Miller-Heidke frá Ástralíu er einlægur aðdáandi Hatara. Hún stígur á sviðið í Tel Avív á undan þeim. Kate hefur fylgst vel með liðsmönnum Hatara og er mikill aðdáandi. „Þau eru öll frábær. Atriðið sjálft er stórsnjallt og mér finnst frábært að sjá þau í viðtölum. Það er eins og þau séu öll með bakgrunn í leiklist – þau gera þetta allt alveg upp á tíu,“ segir hún.

Lagið hennar og atriðið hefur einnig vakið töluverða athygli en lagið fjallar um hvernig hún reis upp úr fæðingarþunglyndi. „Ég man að ég vaknaði einn daginn eins og krafturinn væri að koma aftur og ég hafði stjórn á lífi mínu. Ég gat tengt við allt og alla og ég man svo vel hvað það var mikill léttir þegar það gerðist. Það var mikil gleði að þetta væri búið og lagið reynir að fanga þá gleði á þessum þremur mínútum.“

Miller-Heidke samdi lagið með manninum sínum en þau hafa unnið lengi saman að tónlist. „Hann hefur glímt við þunglyndi og við erum opin með það. Ég settist samt ekki niður og ákvað að semja lag um tilfinningar mínar og líðan. Mér finnst samt ég verða að semja og skrifa um eitthvað sem er raunverulegt og tengist mér. Annars er það bara leiðinlegt.“

Kate segir að alveg frá því að Ástralía fékk keppnisleyfi hafi hana dreymt um að keppa. Það sé því ákveðinn draumur að vera stödd í Tel Avív þótt dagskrá keppenda sé löng og ströng. „Þegar ég samdi lagið var ég ekki alveg viss hvort þetta væri Eurovision-lag en mig langaði að semja lag sem gæti lifnað við á Eurovision-sviðinu,“ segir hún. „Allt í kringum Eurovision er svolítið klikkað en mér finnst ég mjög heppin að vera hér. Ég kvarta ekki.“

Atriðið er nokkuð sérstakt en það er listgjörningur frá hóp sem kallar sig Strange Fruit sem sér um það. „Það var eitthvað sem kallaði á mig þegar ég sá þau og mér fannst þetta passa við lagið. Eitthvað passaði, söngurinn og atriðið verða eitt.“

Ástralía tók fyrst þátt í Eurovison-keppninni árið 2015. Þá sem sérstakur gestur í tilefni af sextíu ára afmæli keppninnar. Ástralar hafa verið með síðan en mikill áhugi er á keppninni þar í landi.