„Ég var að klára Dopesick-þættina á Disney+. Þetta eru alveg ógeðslega góðir þættir,“ segir Atli Fannar, með mikilli áherslu. „Þættirnir styrkja Michael Keaton sem besta leikara allra tíma,“ heldur hann áfram og hlær. „Þættirnir fjalla um ópíóíðafárið í Bandaríkjunum, hvernig þetta varð allt til og hver staðan er á því í dag. Þetta er alveg lygileg saga en alveg fáránlega góðir þættir sem ég mæli með að allir horfi á.

Á sunnudögum eru bara svona íslensk kvöld, þar sem við tökum Verbúðina og Svörtu sanda, mjög ólíkir þættir en báðir alveg hrikalega skemmtilegir. Mér finnst líka bara skemmtilegt hvað þeir eru ólíkir,“ segir Atli sem er ánægður með að jafn ólíkir þættir séu á dagskrá tveggja sjónvarpsstöðva á sama kvöldi vikunnar.

„Það er gaman að fá períóðuna í Verbúðinni og svo eru Svörtu sandar alveg allt annað.“

Síðast en ekki síst gleðst Atli yfir því að grínþættirnir 30 Rock séu komnir á nokkrar efnisveitur. „30 Rock eru svona nýjustu gamanþættir sem ná sömu hæðum og þættir eins og Seinfield, The Office og það allt saman,“ segir Atli Fannar og ánægjan leynir sér ekki en hann byrjaði að horfa á þáttaröðina frá byrjun til að rifja þá upp. „Þetta eru alveg ógeðslega góðir þættir.“